Þorpið – Tengslasetur

Fjölbreyttur hugmyndafræðilegur grunnur

Hugmyndafræði Þorpsins byggir á fjölbreyttum grunni kenninga og fræða sem snúa að mikilvægi fyrstu áranna í lífi barna. Hvernig eðlilegu þroskaferli þeirra er háttað og hvernig best er farið að því að stuðla að sem bestum lífsgæðum fyrir þau og fjölskyldur þeirra.

Mikilvægi fyrstu áranna

Við fæðingu er heili barns um 50% af fullorðinsstærð. Við þriggja ára aldur er heilinn um 75% af fullorðinsstærð og við 5 ára aldur er heilinn orðinn um 90% af fullorðinsstærð.  Meðgangan og fyrstu árin leggja því grunn að heilaþroska og velferð barnsins og því er til mikils að vinna að hlúa að börnum á þessu viðkvæma æviskeiði.

Markmið Þorpsins er því að efla börn og fjölskyldur þeirra á þessu mikilvæga tímabili með fjölbreyttri og faglegri þjónustu.

Virðing og góð tengsl í uppeldi

Síðustu ár hefur ítrekað verið sýnt fram á mikilvægi fyrstu áranna í lífi barna með tilliti til tengslamyndunar við umönnunaraðila, því börn búa að góðum tengslum í æsku ævilangt.

Forsenda þess að börn geti átt í góðum tengslum við umönnunaraðila er að þeir hlúi vel að sjálfum sér og sýni sér mildi. Með því móti eru þeir betur í stakk búnir að tengjast börnum sínum og mæta þeim af virðingu. Þannig geta foreldrar verið sú örugga höfn sem börn þeirra þarfnast. Þá geta börn vaxið úr grasi með þekkingu á viðbrögðum sínum, styrkleikum og áhuga, sem meðal annars stuðlar að heilbrigðri sjálfsmynd þeirra.

Lærum í gegnum leik og náttúru

Kenningar um reynslunám og hugmyndafræði náttúrumeðferðar byggja á því að við lærum best á því að upplifa á eigin skinni og prófa okkur áfram við nokkuð öruggar aðstæður. Við lærum t.d. ekki að synda með því að lesa um það eingöngu.

Þegar börn og umönnunaraðilar fá tækifæri til að prófa sig áfram og kynnast umhverfinu í gegnum eigin upplifanir læra þau á eigin skinni að tileinka sér nýja færni. Í Þorpinu verður lagt upp úr því að skapa öruggar aðstæður fyrir fjölskyldur til að prófa sig áfram í því sem þau kjósa að taka sér fyrir hendur. Umönnunaraðilar fá tækifæri til að ígrunda ákveðna þætti innra með sér út frá þeim verkefnum sem unnin voru.

Mikilvægi iðju

Hugmyndafræði iðjuþjálfunar hefur mikil áhrif á starfsemi Þorpsins.

Iðja er allt sem fólk tekur sér fyrir hendur í daglegu lífi og hefur persónulega og menningarlega þýðingu fyrir það. Leikur er talinn vera ein helsta iðja barna. Í gegnum leik lærir barnið að aðlagast umhverfinu og þróa með sér hreyfi-, félags- og vitræna færni sem nýtist í gegnum lífið.

Í Þorpinu er unnið út frá fjölskyldumiðaðri nálgun þar sem áhersla er lögð á að hver og ein fjölskylda sé einstök og ólík innbyrðis. Fjölskyldan er fasti punkturinn í lífi barna og best til þess fallin að styðja þau.

Valdefling umönnunaraðila skiptir sköpum þegar kemur að því að þeir upplifi sig sem örygga leiðtoga í lífi barna sinna. Hugmyndafræði valdeflingar (e. empowerment) snýr að því að efla einstaklinga í eigin lífi með því að hafa yfirsýn og upplýsingar til að taka góðar ákvarðanir í eigin þágu. Valdefldir og upplýstir umönnunaraðilar eru þannig líklegri til að efla börnin í að vera leiðtogar í eigin lífi.

Póstlisti

Skráðu þig á póstlista Þorpsins og fáðu upplýsingar um allt það nýjasta sem er framundan hjá okkur í viðburðum, námskeiðum og nýjungum í vefverslun.

Við notum vafrakökur til að tryggja að þú fáir bestu upplifunina á vefsíðunni okkar.  Ef þú heldur áfram gerum við ráð fyrir að þú samþykkir þessa skilmála. Lesa meira