Tengslasetur

„Af hverju varstu þá að eignast börn?“

Mamma og marinó

Höfundur Sólveig Kristín Björgólfsdóttir

Iðjuþjálfi og tveggja barna móðir

Mér finnst eins og ég þurfi að byrja á því að segja að ég elska börnin mín og ég elska að vera mamma þeirra. Einhverra hluta vegna finnst mér eins og ég þurfi að taka það fram áður en áfram er haldið.  Ætli það sé ekki vegna þess að í hvert skipti sem einhver talar um að finnast foreldrahlutverkið krefjandi er einhver „besserwisser“  þarna úti sem hrópar: „ Af hverju varstu þá að eignast þau?“  eða: „ Þú valdir þetta, þú þarft að lifa með því“

En ég get elskað að vera mamma þeirra, þó svo að það geti líka verið alveg ótrúlega erfitt. Málið er nefnilega að það eru ekki þau sem gera það erfitt. Það er ekkert erfitt að eiga barn, en það getur verið mjög krefjandi að eiga barn í samfélaginu okkar í dag.

Það er kannski heldur langt gengið að segja að það sé ekkert erfitt að eiga barn, það getur reynt á taugarnar og setur spegil í andlitið á manni sem er svo stór að maður getur hvergi flúið. En það er líka það fallega, að gera upp öll gömlu mynstrin sem voru svo ómeðvituð á sama tíma og maður leiðbeinir þessum gormum í gegnum lífið.  En þegar að álag nútímasamfélags kemur ofan á það ferli þá flækjast hlutirnir. Þá höfum við takmarkað rými til þess að staldra við og skoða hvaða mynstur eru að birtast í samskiptum okkar við börnin. En nú myndu sumir segja: „Hvað er þetta? Dragðu þá úr álaginu.“  Við því segi ég: „Hvernig á ég að gera það?  Á ég ekki að þrífa heimilið mitt? Bara aldrei? Hætta að vinna? Skera af gæðatíma með krökkunum? Eða kannski hætta bara að sinna minni andlegu og líkamlegu heilsu? Hver þarf að fara versla í matinn, elda, eða borða næringarríkan mat ? Svefn er líka ofmetinn, ég gæti nú alveg gengið á 3 tímum, eða hvað?“

Nú vil ég taka það fram að ég er einstæð og er í hlutverki móður og föður dagsdaglega fyrir börnin mín. Ef ekki væri fyrir stuðning foreldra minna og nákominna vina þá veit ég ekki hvar ég væri stödd í dag. En foreldrar í samböndum glíma líka við þessi vandamál og ofan á það sem var upptalið bætist við að sinna parasambandinu, því ekki er það lítið mikilvægt þegar halda á fjölskyldu saman. Það er grunnurinn að því að þetta gangi upp, samhliða sjálfsrækt.

En hvernig getum við sagt þreyttum foreldrum að sinna sjálfsrækt og látið eins og það sé lausnin við öllum þeirra vandamálum? Það hjálpar að sjálfsögðu en við búum í samfélagi þar sem aðstæður eru svo streituvaldandi að foreldrakulnun er orðin raunverulegt vandamál. Hvenær eiga foreldrar að hafa tíma fyrir sjálfsrækt þegar þeir vinna allan daginn, koma heim og þurfa að sinna heimilinu, finna tíma fyrir börnin, nærast og reyna að komast í háttinn á ásættanlegum tíma til þess að endurtaka þetta svo allt aftur.  Svo ekki sé að nefna helgarnar, það er ekkert sem heitir helgarfrí þegar þú átt börn sem þurfa á þér að halda á allan hátt.  Þreytt foreldri mætir í vinnu eftir helgina og heyrir frá Gunnari sem á ekki börn og vaknar aldrei fyrir kl. 11 um helgar: „Hvað er að sjá þig, varst þú ekki að koma úr helgarfríi?“ ….. „Nei, Gunnar. Skokkaðu á vegg.“

Fleiri greinar

Póstlisti

Skráðu þig á póstlista Þorpsins og fáðu upplýsingar um allt það nýjasta sem er framundan hjá okkur í viðburðum, námskeiðum og nýjungum í vefverslun.

Við notum vafrakökur til að tryggja að þú fáir bestu upplifunina á vefsíðunni okkar.  Ef þú heldur áfram gerum við ráð fyrir að þú samþykkir þessa skilmála. Lesa meira