Þorpið – Tengslasetur

Þorpið tengslasetur

Þorpið tengslasetur er okkar mótsvar við þeirri miklu streitu sem einkennir samfélagið og hefur afgerandi áhrif á börn og fjölskyldur þeirra, það byggir á hugmyndinni “það þarf þorp til að ala upp barn.”

Þorpið er vettvangur sem styður við tengslamyndun fjölskyldna í gegnum ýmiskonar viðburði, námskeið og einstaklingsþjónustu sem er bæði í raun- og netheimum.  Við leggjum mikla áherslu  á að styðja foreldra í sinni vegferð til þess að þeir hafi sem besta möguleika til að vera þeir öruggu leiðtogar í lífi barnanna sinna þau eiga skilið. Þess vegna bjóðum við bæði upp á viðburði þar sem foreldrar og börn njóta saman og þar sem foreldrar eru einir og sér. Viðfangsefnin eru mjög fjölbreytt en snúa öll að tengslum við sig, börnin eða umhverfið.

Fyrstu árin skipta sköpum og leggja grunninn að því hver einstaklingurinn getur orðið. Okkur hjá Þorpinu þykir því mikilvægt að hlúa að þeim aðilum sem sjá um börnin á þessum fyrstu veigamiklu árum svo þeir upplifi sig sem örugga leiðtoga í eigin lífi. Þannig eru þeir í stakk búnir að leiða börnin í gegnum vegferðina sem lífið er.

“Þetta snýst ekki um að gera allt rétt

heldur að vera forvitin og sátt við það sem við gerum”

Fyrir hverja er Þorpið?

  • Þorpið er fyrir öll börn fyrstu fimm árin og fjölskyldur þeirra.
  • Þorpið er fyrir umönnunaraðila innan og utan heimila sem setja sjálfan sig í forgang. Þannig forgangsraða þeir þeim sem þeim þykir vænt um.
  • Fyrir foreldra í fæðingarorlofi eða umönnunaraðila sem vilja verja auknum tíma með ungum börnum sínum í styðjandi umhverfi.
  • Fyrir verðandi foreldra eða foreldra í barnaeignarhugleiðingum.
  • Fyrir forvitna sem hafa áhuga á að læra og leika sér.
  • Fyrir ástríðufulla aðila sem vilja miðla þekkingu sinni með það að marki að gera samfélagið okkar betra.

Hvert er markmiðið?

Markmiðið er að skapa tengdara samfélag, þar sem allir upplifa að þeir tilheyri og hafi rödd. Samfélag þar sem allir fá tækifæri til að hámarka eiginleika sína. Samfélag sem býður upp á fjölbreyttan stuðning til umönnunaraðila og veitir fjölskyldum fleiri tækifæri og möguleika á að njóta samveru barna sinna í styðjandi umhverfi.

Viljum við ekki öll að börn vaxi úr grasi með sterkan grunn til að takast á við breytingatímabil síðar á lífskeiðinu?

Þegar börn fá tækifæri til að taka þátt í upplifunum með stuðningi fjölskyldu sinnar fyrst og fremst, í samfélagi jafnaldra og annarra fullorðinna eflist sjálfsþekking og samkennd þeirra. Þannig læra börn að þekkja tilfinningar sínar og viðbrögð, styrkleika og áhuga.

Til þess að ná því markmiði teljum við lykilatriði að efla umönnunaraðila. Að þeir fái stuðning til að skýra sína sýn, hvað skiptir þá máli og hanna sitt drauma líf. Líf þar sem einstaklingar stýra sínum tíma í stað þess að tími og streita stjórni þeim.    Einstaklingar sem upplifa sig sem örugga leiðtoga í eigin lífi og lífi barna sinna hafa frekar rými til þess að vera til staðar fyrir sig og sína. Börnin læra það sem fyrir þeim er haft og þegar umönnunaraðilar hlúa að sér þá miðlar þeir dýrmætri visku til barnanna.

Uppruninn

Okkur var farið að líða eins og utangarðs í okkar eigin samfélagi, þar sem áherslan er á árangur og afköst fram yfir líðan og velferð einstaklinganna. Leikskólar eru yfirfullir og undirmannaðir, foreldrar eru látnir standa einir í fæðingarorlofi með óskýr svör um hvenær og hvort þeir fái leikskólapláss. Á sama tíma og þeir fá þau skilaboð um að aðrir séu betur til þess fallnir að annast börn þeirra fyrstu viðkvæmustu árin. Þorpið er sprottið sem svar við þessum veruleika. 

Forvarnir eru okkar hjartans mál, við viljum efla einstaklinga frá upphafi og draga úr álagi á fjölskyldueininguna. 

Við höfum fundið á eigin skinni og frá öðrum umönnunaraðilum að þörf er á stöðugum vettvangi fyrir barnafjölskyldur í íslensku samfélagi. Þorpinu er ætlað að vera sú örugga höfn sem barnafjölskyldur eiga skilið.

Við erum hjartanlega þakklátar fyrir alla þá sem hafa lagt okkur lið á einn eða annan hátt. Það þarf þorp til að reisa Þorp.

Póstlisti

Skráðu þig á póstlista Þorpsins og fáðu upplýsingar um allt það nýjasta sem er framundan hjá okkur í viðburðum, námskeiðum og nýjungum í vefverslun.

Við notum vafrakökur til að tryggja að þú fáir bestu upplifunina á vefsíðunni okkar.  Ef þú heldur áfram gerum við ráð fyrir að þú samþykkir þessa skilmála. Lesa meira