Tengslasetur

Fals­lausnir fyrir tann­hjól at­vinnu­lífsins sem bitna á börnunum okkar

274232718_940213279969994_3027579870341926176_n-1

Höfundur: Hulda Margrét Brynjarsdóttir, co-creator
@leid.ad.uppeldi

Nei, nú er mér nóg boðið

Ég man þegar ég í örvæntingu minni reyndi að tefja það að frumburðurinn okkar færi á leikskóla og var svo heppin að hafa mömmu mína okkur til aðstoðar, en hún passaði barnið okkar á meðan faðirinn vann 100% starf og ég 50% starf. Eftir að seinna barn okkar kom í heiminn, aðeins 23 mánuðum seinna, sá ég okkur ekki aðra undankomuleið en að flytja í barnvænna samfélag – og með því vorum við flutt til Noregs. Mér var nóg boðið. Enn sú þvæla að við höfðum engra annarra kosta völ en að setja börnin okkar í leikskóla þegar ég þráði það eitt að fá að vera með þeim að fullu fyrstu árin. Að það væru engir aðrir kostir, ekkert val, til að halda okkur á floti fjárhagslega fannst mér alger frásinna. Og síðan eru liðin 4 ár – og á þessum fjórum árum hef ég talað við ógrynni af foreldrum (þó aðallega mæður) sem gráta það sárt að þurfa að setja barnið sitt til dagforeldra eða á leikskóla fyrir tveggja ára afmælið (og jafnvel eftir það).

Sæunn Kjartans og Fyrstu fimm

Samtökin Fyrstu fimm voru stofnuð af svipað þenkjandi foreldrum í byrjun árs 2021. Þarna var hópur foreldra sem hafði frætt sig allvel um þau málefni er við koma börnum, geðheilsu þeirra og mikilvægi þess að ung börn fái nægan tíma með foreldrum sínum. Í þessum hópi talar fólk fyrir málefnum barna – því ekki geta þau talað fyrir sig sjálf. Því miður erum við, enn þann dag í dag og miðað við alla þá þekkingu sem hægt er að finna, ekki að forgangsraða barnanna vegna. Stjórnmálafólk keppist nú við að gefa út allskyns loforð fyrir kosningar, en allt of fá þeirra eru fyrir raunverulegum hag barna. Þar vitna ég í greinar stjórnmálakvenna Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík og í kjölfarið vitna ég í ræðu Sæunnar okkar Kjartans sem hefur til margra ára verið talskona þess hve tengsl foreldra og barna eru mikilvæg fyrstu ár lífsins. Hún skrifaði bækurnar „Fyrstu 1000 dagarnir – barn verður til“ og „Árin sem enginn man“ þess efnis. Sæunn hélt ræðu á fyrsta málþingi Fyrstu Fimm sumarið 2021, sem í heild sinni er hægt að nálgast hér.

Afhverju er það svo að við hjónin sáum okkur ekkert annað fært en að flytja í næsta land til að geta fengið styrki til að vera með börnin okkar heima eftir fæðingarorlof? En eftir að sú yngri varð 12 mánaða fengum við þar mánaðarlega styrki, sem vara fram að 24 mánaða aldri barns. Sá mánaðarlegi styrkur voru ekki litlar 35.000kr eins og einhver sveitarfélög hér á Íslandi stæra sig af, heldur voru þetta góðar 7000nok, og eru í dag 7500nok (104.000isk á genginu þann 3.maí, 2022). Á meðan máttum við bæði vinna, annað okkar 100% starf, hitt hlutastarf. Þetta úrræði var glæsileg byrjun á því að geta svo verið heima með börnin en ég var með þær í heimaskóla þar til þær urðu rúmlega þriggja og fimm ára – eða þar til við fluttum aftur heim til Íslands.

Íslenskir foreldrar ættu að eiga fleiri valkosti

Íslenskir foreldrar hafa margir hverjir ekkert val um að vera með börnin sín lengur heima. Hér á landi er fæðingarorlofi öðruvísi háttað, þar sem tekið var í gildi 12 mánaða fæðingarorlof, 6 mánuðir fyrir foreldri (aftur, aðgerð sem ekki er gerð í hag barna líffræðilega séð!) og fæðingarorlofið er jafnvel styttra en á hinum norðurlöndunum og engin heimgreiðsla/styrkur að orlofi loknu. Á einföldu máli eru íslenskir foreldrar stressaðir og án úrræða, sem svo hefur áhrif á börnin. En það eru fullt af foreldrum sem vilja hafa kost á að vera lengur heima eftir orlof!

Í facebook-hópnum Fyrstu Fimm eru nú þegar yfir 2000 meðlimir, í facebook-hópnum „Heimakennsla/Homeschooling – Ísland“ eru 269 meðlimir, í facebook-hópnum „Heimakennsla og hægt líf“ eru nú þegar 187 manns. Það er ekki úr lausu lofti gripið að hér sé ég að grátbyðja stjórnmálafólk um að kynna sér hag þess að koma á lengra fæðingarorlofi og heimgreiðslum, svo að foreldrar geti framlengt orlof sín, notið góðs af með börnunum sínum, og þar af leiðandi jafnvel minnkað álag á leikskólum (börn koma seinna inn).

Hvert erum við komin þegar foreldrar landsins hrannast inn í endurhæfingarstöðvar, ráðþrota og langþreytt? Hvert erum við komin þegar allt snýst um að koma fólki inn í tannhjólið sem borgar skatta þessa lands? Hvenær varð það normið að börn, 6-24 mánaða sérstaklega, væru í dagvistun í 8klst á dag!?

Vítahringur sem þarf að stöðva

Að halda að fjöldinn allur af ungbarnaleikskólum sé lausnin er alger frásinna og einungis gert til að koma foreldrum aftur út á vinnumarkaðinn. Þar er hagur barna alls ekki hafður að leiðarljósi, enda löngu orðið öngþveiti á leikskólum landsins vegna manneklu og of mikils fjölda barna. Starfið er illa launað miðað við álag og börn eru mikið lengur á leikskóla yfir daginn en börnin á löndunum í kringum okkur.

Nú þegar hafa allt of margir stjórnmálaflokkar lagt til að byggðir verði ungbarnaleikskólar en þeir skeita engu um það hversu fáir menntaðir starfsmenn eru nú þegar á leikskólum landsins – hvar á að fá starfsfólk? Þeir tala ekki um þá staðreynd að 9% leikskólastarfsmanna enda í endurhæfingu – og það eru bara þeir sem sækja sér aðstoðar. En svo eru það þeir sem fara útbrenndir í önnur störf. Það er ekki talað um þá staðreynd að löndin í kringum okkur eru með val fyrir foreldra, að leikskólar og dagvistanir séu ekki alltaf eina og besta svarið.

Hvað er stjórnmálafólk ekki að sjá?

Á málþingi Íslenskrar erfðagreiningar sem Kári Stefánsson stóð fyrir fyrr á þessu ári, sem bar heitið „Höfum við efni á barnafátækt?“ voru Dagur B. Eggertsson og Katrín Jakobsdóttir fengin til að gefa álit sitt á málefnum þessa málþings. Það byrjaði ekki betur en svo að bæði tvö lofuðu þau hvernig hlutirnir gengju nú þegar, þó Kári Stef væri ekki lengi að troða því aftur ofan í þau, eins og honum einum er lagið. Enda var ekki verið að tala um hvað gengi vel, heldur hversu illa gengi að fylgja því eftir í gjörðum sem þykir svo flott á pappír.

Við getum ekki haldið áfram að grípa í falslausnir fyrir tannhjól atvinnulífsins á kostnað barnanna okkar. Við getum ekki haldið áfram að lýta hjá þeirri staðreynd að hér er alls ekki nógu vel staðið að málefnum barnafjölskyldna. Afhverju er svona flókið fyrir okkur að koma á lengra fæðingarorlofi og heimgreiðslum þegar þetta hefur verið gert svoleiðis árum saman á löndunum í kring? Hvað er að stoppa okkur í að huga að tíma foreldra og barna í frumbernsku, sem er mikilvægasti og mest mótandi tími ævinnar? Hvar er stjórnmálafólkið sem áttar sig á hag þess til lengri tíma að hlúa að foreldrum og börnum fyrstu tvö æviárin!?

Fleiri greinar

Póstlisti

Skráðu þig á póstlista Þorpsins og fáðu upplýsingar um allt það nýjasta sem er framundan hjá okkur í viðburðum, námskeiðum og nýjungum í vefverslun.

Við notum vafrakökur til að tryggja að þú fáir bestu upplifunina á vefsíðunni okkar.  Ef þú heldur áfram gerum við ráð fyrir að þú samþykkir þessa skilmála. Lesa meira