Tengslasetur

Pistlar

„Af hverju varstu þá að eignast börn?“ 

Höfundur Sólveig Kristín Björgólfsdóttir

Iðjuþjálfi og tveggja barna móðir

Mér finnst eins og ég þurfi að byrja á því að segja að ég elska börnin mín og ég elska að vera mamma þeirra. Einhverra hluta vegna finnst mér eins og ég þurfi að taka það fram áður en áfram er haldið.  Ætli það sé ekki vegna þess að í hvert skipti sem einhver talar um að finnast foreldrahlutverkið krefjandi er einhver „besserwisser“  þarna úti sem hrópar: „ Af hverju varstu þá að eignast þau?“  eða: „ Þú valdir þetta, þú þarft að lifa með því“

En ég get elskað að vera mamma þeirra, þó svo að það geti líka verið alveg ótrúlega erfitt. Málið er nefnilega að það eru ekki þau sem gera það erfitt. Það er ekkert erfitt að eiga barn, en það getur verið mjög krefjandi að eiga barn í samfélaginu okkar í dag.

Það er kannski heldur langt gengið að segja að það sé ekkert erfitt að eiga barn, það getur reynt á taugarnar og setur spegil í andlitið á manni sem er svo stór að maður getur hvergi flúið. En það er líka það fallega, að gera upp öll gömlu mynstrin sem voru svo ómeðvituð á sama tíma og maður leiðbeinir þessum gormum í gegnum lífið.  En þegar að álag nútímasamfélags kemur ofan á það ferli þá flækjast hlutirnir. Þá höfum við takmarkað rými til þess að staldra við og skoða hvaða mynstur eru að birtast í samskiptum okkar við börnin. En nú myndu sumir segja: „Hvað er þetta? Dragðu þá úr álaginu.“  Við því segi ég: „Hvernig á ég að gera það?  Á ég ekki að þrífa heimilið mitt? Bara aldrei? Hætta að vinna? Skera af gæðatíma með krökkunum? Eða kannski hætta bara að sinna minni andlegu og líkamlegu heilsu? Hver þarf að fara versla í matinn, elda, eða borða næringarríkan mat ? Svefn er líka ofmetinn, ég gæti nú alveg gengið á 3 tímum, eða hvað?“

Nú vil ég taka það fram að ég er einstæð og er í hlutverki móður og föður dagsdaglega fyrir börnin mín. Ef ekki væri fyrir stuðning foreldra minna og nákominna vina þá veit ég ekki hvar ég væri stödd í dag. En foreldrar í samböndum glíma líka við þessi vandamál og ofan á það sem var upptalið bætist við að sinna parasambandinu, því ekki er það lítið mikilvægt þegar halda á fjölskyldu saman. Það er grunnurinn að því að þetta gangi upp, samhliða sjálfsrækt.

En hvernig getum við sagt þreyttum foreldrum að sinna sjálfsrækt og látið eins og það sé lausnin við öllum þeirra vandamálum? Það hjálpar að sjálfsögðu en við búum í samfélagi þar sem aðstæður eru svo streituvaldandi að foreldrakulnun er orðin raunverulegt vandamál. Hvenær eiga foreldrar að hafa tíma fyrir sjálfsrækt þegar þeir vinna allan daginn, koma heim og þurfa að sinna heimilinu, finna tíma fyrir börnin, nærast og reyna að komast í háttinn á ásættanlegum tíma til þess að endurtaka þetta svo allt aftur.  Svo ekki sé að nefna helgarnar, það er ekkert sem heitir helgarfrí þegar þú átt börn sem þurfa á þér að halda á allan hátt.  Þreytt foreldri mætir í vinnu eftir helgina og heyrir frá Gunnari sem á ekki börn og vaknar aldrei fyrir kl. 11 um helgar: „Hvað er að sjá þig, varst þú ekki að koma úr helgarfríi?“ ….. „Nei, Gunnar. Skokkaðu á vegg.“

 

 

Þegar ég varð mamma í fyrsta skipti…

Höfundur Sólveig Kristín Björgólfsdóttir

Iðjuþjálfi og tveggja barna móðir

Þegar ég varð mamma í fyrsta skipti, nýorðin 22 ára, þá vissi ég ekkert hvað ég var að gera.  Ég skildi ekki afhverju ég horfði á þessa yndislegu stelpu og hugsaði „mig langar að gera allt annað en að vera hérna með þér.“  Í dag veit ég að það var fæðingarþunglyndi og það að ég bjó við aðstæður sem voru ekki þær bestu, hvorki fyrir hana né mig.

Ég einangraði mig, fór lítið út og átti erfitt með að sinna sjálfri mér. En ég sinnti henni. Ég gaf henni vel að borða, baðaði, las tvær bækur á hverju kvöldi, söng fyrir hana og dundaði í allskonar föndri. En við horfðum líka mikið á teiknimyndir og fórum lítið út.  Ég talaði mig niður allan tímann, leið eins og ég væri föst í búri og var varla á staðnum þegar við vorum saman. Frá því að við fórum á fætur taldi ég mínúturnar þangað til að hún myndi leggja sig og svo þangað til að háttatíminn kæmi. Þetta litla ljós sem átti allt það besta í heiminum skilið, og hún fékk mig. Ég skildi ekki hvernig lífið gat gert henni þetta.

Foreldrar mínir bjuggu fyrir sunnan og ég á Akureyri á þessum tíma. Þegar mamma hringdi, sem ég vissi að hafði miklar áhyggjur af mér, sagði ég alltaf að það væri „allt í lagi.“  Þegar hún spurði út í daginn þá laug ég oftar en ekki, sagði að við hefðum farið út og að ég væri búin að taka til. Ég hafði ekki gert það, ég var ekki búin að fara út, ég var ekki búin að fara í sturtu í viku og ég hafði ekki borðað neitt að viti í nokkra daga af því að ég vildi ekki fara út í búð, því þar gæti ég rekist á fólk sem myndi strax sjá í gegnum mig og hversu slæm mamma ég væri. 

Þegar ég horfi til baka sé ég hversu ótrúlega brotin ég var og einmana. Ég vildi ekki vera byrði á neinum og fannst eins og ég ætti að kunna að vera mamma hennar. Að ég gæti ekki sagt upphátt að oftast langaði mig bara ekkert að eiga hana. 

Þegar litla elsku fallega ljósið mitt var að verða tveggja ára ákvað ég svo að ég gæti þetta ekki lengur, ég væri ömurleg mamma sem ætti hana ekki skilið og hún væri mun betur sett án mín. Ég var líka búin að sannfæra mig um að það væri sjálfselska af fólkinu mínu að vilja hafa mig hér á þessari jörð þegar dóttir mín væri betur sett án mín og ég betur geymd í gröfinni.

En eitthvað gerðist þar sem ég sat búin að undirbúa brottför.  Eins og lítil rödd segði að þetta væri ekki rétta leiðin og að ég gæti rétt út höndina og beðið um hjálp. Ég hafði samband við konu frænda míns, sem hefur verið mikill klettur fyrir mig í gegnum árin, meiri en mér hefur nokkurn tíman þótt ég eiga skilið. Hún bjargaði mér og kom mér inn á geðdeild.  Án hennar væri ég líklega ekki hér í dag.

Ég var þar í 3 vikur, fékk stuðning og útskýringu á því af hverju mér var búið að líða eins og mér var búið að líða allan þennan tíma. Ég var ekki ömurleg móðir, ég var bara að burðast ein með hugsanir og tilfinningar sem ég skildi ekki.

Í dag er ég miklu meðvitaðri um hvernig mér líður og tengslin við börnin mín eru alltaf að verða sterkari og sterkari. Elsku yndislega stelpan mín fór í gegnum mjög erfiða tíma með mér en með því að tala saman og búa til nýjar minningar erum við sterkari en ég hefði getað ímyndað mér.  Við grátum saman, hlæjum saman og förum í gegnum erfiðar tilfinningar saman.   Allar tilfinningar eru leyfilegar og samþykktar á okkar heimili og þannig viljum við hafa það.

Ef ég gæti farið til baka myndi ég hvetja ungu buguðu móðurina til þess að biðja um aðstoð, segja mömmu hvað er í raun og veru í gangi, tala við vini sína og ekki vera hrædd við að tala opið um það hvernig henni líður og hvað hún er að upplifa.

Það er engin skömm í því að finnast erfitt að vera mamma og fæðingarþunglyndi er ekkert grín, það ætti enginn að þurfa að bera það einn. Ef þú ert að upplifa eitthvað svipað eða tengir við þessi skrif, ekki hika við að leita þér aðstoðar, hvort sem það er hjá fagaðila, fjölskyldumeðlimi eða traustum vini.   Það þurfa allir stuðning <3 

Viðhorf og foreldrahlutverkið 

Höfundur Rakel Guðbjörnsdóttir

Foreldrafræðslu og uppeldisráðgjafi

Að verða foreldri

Uppeldi er breytilegt lífstíðarferli þar sem hvert þroskastig býður upp á ný tækifæri og aukinn þroska fyrir bæði foreldri og barn. Það er mikilvægt að skoða tilfinningalíðan og viðbrögð foreldra uppeldishlutverkinu því samspil er á milli vaxtar foreldris sem uppalanda og aukinn skilnings á þörfum barns.

Miklar breytingar hafa orðið á uppeldishlutverkinu í kjölfarið af snjallvæðingunni og þeim hraða sem einkennir samfélagið í dag. Hraðinn og þær freistingar sem fylgja honum koma úr öllum áttum og fanga athygli barna, unglinga og fullorðinna. Það getur haft þau áhrif að fólk fjarlægist sjálfan sig og fer að taka þátt í flæði samfélagsins, sem setur einstakling í áhættu að aftengjast eigin kjarnasjálfi og detta inn í vanaferli. Þeirri hættu getur fylgt að einstaklingurinn verður aukapersóna í lífi annarra og í samfélaginu frekar en að vera aðalpersóna í eigin lífi.

Það getur því verið krefjandi að finna jafnvægi þegar fólk hættir að bera eingöngu ábyrgð á sjálfum sér og athyglin beinist að ósjálfstæðum einstaklingi sem foreldri ber alfarið ábyrgð á. Foreldrar standa því frammi fyrir nýjum áskorunum sem hafa víðtæk áhrif á líf þess. Það er því ljóst að þó foreldri telji sig vel undirbúið fyrir foreldrahlutverkið þá breytist vitund þeirra þegar þeir bera alfarið ábyrgð á nýju lífi. Foreldrar finna sig í aðstæðum sem getur reynt á allar taugar í líkamanum, mikil streita, svefnleysi og foreldrar átta sig oft á tímum ekki alveg strax á því hversu mikið athyglin fer frá öllu því sem þau eru vön til að sinna ósjálfbjarga einstaklingi.

Foreldrahlutverkið reynir á þolmörk sem aldrei fyrr, reiði, pirringur, særindi og allar þær tilfinningasveiflur sem fylgja. Það er því mikilvægt að foreldrar skoði eigin innri ferli eða tilfinningar, því þar liggja grunnviðhorf og viðbrögð foreldris. Meðvitundin felur því í sér að vera meðvituð um hvernig viðbrögð foreldris hefur áhrif á barnið og hvort þau viðbrögð eru út frá þörfum barnsins eða vanaferlum foreldris. Þegar foreldrar eru meðvitaðir um sjálfan sig þá eru þeir hæfari til að finna jafnvægi í að skapa nægilega mikið svigrúm og öryggi fyrir barnið að þroskast og finna eigin takt í lífinu.

Af hverju er mikilvægt að skilja viðhorf sem uppalandi?

Samskipti foreldris og barns byggja að miklu leyti á viðbragði foreldris við barninu og félagslegum þáttum. Hvernig foreldri bregst við barninu sínu í samskiptum er flókið úrvinnsluferli og felst í hæfni foreldris til að túlka aðstæður sem byggðar eru á fyrri reynslu og flóknum félagslegum þáttum. Þar sem samskipti við barnið geta triggerað foreldrið tilfinningalega, t.d. spurningar barnsins óþægilegar, foreldrið er finnur fyrir ótta út frá sinni reynslu eða hættum sem gætu skapast. Foreldri er því vís til að bregðast við út frá tilfinningum sem bundnar eru við fyrri reynslu en ekki út frá því sem er að eiga sér stað í samskiptum við barnið sitt. Ástæðan fyrir þessu er að foreldri túlkar aðstæður út frá fyrri atburðum, viðhorfum, skoðunum og væntingum sem geta gefið þeim afbakaðar hugmyndir af því sem raunverulega er að gerast.

Sem dæmi:

Þegar sonur minn var 6 ára fluttum við í sama hverfi og ég bjó í sem barn. Þegar hann bað um að fá að fara út að leika þá fann ég að allar frumur í mínum líkama sögðu nei.

Óttinn:

Þetta er svo fjölmennt hverfi og það eru hellingur af hættulegum mönnum hér.

Raunverulegar aðstæður:

Þegar ég var á hans aldri bjó ég í þessu hverfi og það var maður sem við vinkonurnar vorum hræddar við. Það sást nokkru sinnum til hans út í glugga með kíkir að fylgjast með okkur að leika.

Aukinn meðvitund:

Þegar ég setti þetta í samhengi þá áttaði ég mig á því að óttinn að lofa honum að fara út að leika hafði ekkert með helling af hættulegum mönnum að gera heldur þennan eina mann sem ég hafði verið hrædd við þegar ég var barn og hann bjó ekki lengur í blokkinni.

Hvernig myndi ég svara barninu mínu ef ég tala út frá óttanum?

Hvernig myndi ég svara barninu mínu ef ég tala út frá aukinni meðvitund?

Hvar kemur þá viðhorfið hér inn?

Viðbragð og viðhorf 1.

Allar frumur í líkamanum segja nei, þá hlusta ég á það.

Viðhorfið gæti þá verið af því þetta er óþægilegt fyrir mig þá geri ég það ekki þó að ég sé að koma í veg fyrir að hann fari út að leika með sínum vinum.

Viðbragð og viðhorf 2.

Allar frumur í líkamanum segja nei, þá þarf ég að skoða það frekar.

Viðhorfið gæti þá verið af því þetta er óþægilegt fyrir mig þá þarf ég að skoða hvað liggur raunverulega að baki þessa tilfinningu svo ég láti ekki mína reynslu eyðileggja fyrir honum ef hún á ekki við.

Heimildir

Brown, K. W., Ryan, R. M. og Creswell, J. D. (2007). Mindfulness: Theoretical foundations and evidence for its salutary effects. Psychological Inquiry, 18(4), 211–237. doi: 10.1080/10478400701598298

Kabat-Zinn, M. og Kabat-Zinn, J. (1997). Everyday blessing: The inner work of mindful parenting. New York: Hyperion.

Thomas, R. (1996). Reflective dialogue parent education design: Focus on parent development. Family Relations, 45(2), 189–200. doi: 10.2307/585290

Walker, S. (2012). Parent education in the United States. Í Policy Report on Parent Education. Seoul: Korean Child Care and Education Institute.

Póstlisti

Skráðu þig á póstlista Þorpsins og fáðu upplýsingar um allt það nýjasta sem er framundan hjá okkur í viðburðum, námskeiðum og nýjungum í vefverslun.

Við notum vafrakökur til að tryggja að þú fáir bestu upplifunina á vefsíðunni okkar.  Ef þú heldur áfram gerum við ráð fyrir að þú samþykkir þessa skilmála. Lesa meira