Tengslasetur

Sjálfsvinsemd á gervihnatta öld

gervihnattar
Höfundur: Elsa Borg Sveinsdóttir, uppeldisfræðingur og yogakennari
@elsaborgsveins

Sjálfsvinsemd á gervihnatta öld

Fyrir foreldra og uppalendur

Sjálfsvinsemd á gervihnatta öld-uppfært.docx

Öll erum við einstök og ólík sem einstaklingar og foreldrar. Með tilkomu samfélagsmiðla hefur upplýsingaflæði til foreldra og uppalenda aukist sem um munar. Það hefur bæði bjartar hliðar og skuggahliðar. Björtu hliðarnar eru að mínu mati að foreldrar geta fundið lausnir, leiðir og ráð á svipstundu og oft kærkomin stuðning. Mín upplifun á skuggahliðunum eru þær að stuðningurinn varir kannski stutt, ráðunum rignir inn og það getur reynst yfirþyrmandi. Það er margt í mörgu og efnið er allskonar, gott, gagnlegt, dýrmætt og sumt sem er síðra. Möguleikarnir á samanburði við aðra hefur einnig aukist og það læðast kannski í meira magni hugsanir að foreldrum eins og „ég er ekki nógu gott foreldri“ „mér tekst aldrei að gera þetta eins og þessi á instagram“ „Ég geri ekki nógu mikið af þessu eða hinu með börnunum mínum“. Sannleikurinn er sá að við getum ekki orðið eins og annað fólk og það getur verið krefjandi að framfylgja ráðum sem við höfum einungis lesið af skjá. Aðgengið er hinsvegar dásamlegt og getur reynst hjálplegt að fá innblástur og hugmyndir sem hægt er að aðlaga að sér og sínum. Það er þó ekki ólíklegt að samanburðar- og gagnrýnispúkar banki upp á hjá foreldrum í tíma og ótíma og ég þekki þá sjálf vel. Við eigum öll misjafna daga og tímabil. Þessir púkar geta haft gríðarleg áhrif á líðan okkar og þar af leiðandi samskipti okkar og tengingu við börnin okkar. Það hafði gífurleg áhrif á sjálfsöryggi mitt sem foreldri og andlega líðan þegar ég hóf að tileinka mér sjálfsvinsemd. Við erum nefnilega öll mannleg, gerum mistök og lærum svo lengi sem við lifum. Sjálfsvinsemd er orð sem ég kýs að nota því mér þykir það fanga kjarna hugtaksins en oft er talað um sjálfsmildi, góðvild eða samkennd í eigin garð o.fl. Með sjálfsvinsemd mætum við okkur þegar við eigum erfitt á sama hátt og við myndum mæta dýrmætum vin. Þegar púkarnir fyrrnefndu mæta á svæðið að þá gerir sjálfsvitundin/meðvitundin (e. awareness) þér kleift að átta þig eða grípa þig. Þá sýnir þú sjálfum þér vinsemd, skilning og kærleika á þann hátt sem þér líður vel með. Það gæti verið að tala til þín á hughreystandi hátt, veita sjálfum þér nærandi snertingu með hendi á hjarta, knúsi, klappi eða að leyfa þér bara að vera. Síðast en ekki síst er mikilvægt að þú minnir þig á að þú ert ekki ein/einn, það er alltaf einhver að upplifa eitthvað svipað eða aðra erfiðleika. Það þýðir ekki að þú eigir að bera þig saman við aðra og hugsa um að það sé nú alveg í lagi með þig, það eru aðrir sem hafa það verra en þú. Öll þjáning á skilið kærleika, sama hversu stórt eða lítið verkefnið er akkúrat núna. Þegar þú minnir þig á að þú ert ekki ein/einn er tilgangurinn að þú finnir fyrir því sammannlega eðli sem sameinar allar mannverur. Við erum hópdýr og lifum í samfélögum af ástæðu, við erum félagsverur og stuðningur við hvort annað eflir okkur.

Kristin Neff hefur rannsakað ávinning sjálfsvinsemdar í áratugi og er hann mikill, þar má nefna heilt yfir meiri hamingju, heilbrigði og velgengi. Sjálfsvinsemd má iðka á ýmsan máta, Metta hugleiðsla er samkenndar hugleiðsla upphaflega frá Buddha en sjálfsvinsemd á rætur sínar að rekja í djúpfræðin. Það má finna samkenndar hugleiðslur á íslensku frá núvitundarsetrinu á spotify. Kristin Neff er með síðuna Selfcompassion.org þar sem einnig eru upptökur og æfingar. Í bókum Kristinar eru æfingar og hugleiðslur og hún og Chris Gerber hafa gefið út sjálfsvinsemdar vinnubækur. Iðkun sjálfsvinsemdar í daglegu lífi getur því verið margvísleg. Ég vil deila með ykkur æfingu sem ég nýti mér dagsdaglega. Hún er á þessa leið:

Næst þegar þú upplifir krefjandi tilfinningu eða aðstæður, pirring eða uppgjöf. Prufaðu að leggja hendur á hjarta, læri eða fá lófa saman og loka augunum. Beindu athyglinni að andadrætti þínum og leyfðu þér að vera augnablik. Segðu við sjálfan þig þegar þú ert tilbúinn: „mér þykir leitt að þér líði svona“ eða „mér þykir leitt að þú sért að upplifa þetta“. Leyfðu setningunni að hljóma innra með þér þar til þú ert tilbúinn til að koma til baka. Þessar setningar sameina þrjá kjarna eiginleika sjálfsvinsemdar og gera þér kleift að iðka mildi í eigin garð í daglegu amstri.

Elsa Borg Sveins er uppeldisfræðingur og yogakennari.

Leiðarljós mitt er ávallt að styðja við foreldra á þeirra vegferð & vexti í uppeldinu @elsaborgsveins

Fleiri greinar

Póstlisti

Skráðu þig á póstlista Þorpsins og fáðu upplýsingar um allt það nýjasta sem er framundan hjá okkur í viðburðum, námskeiðum og nýjungum í vefverslun.

Við notum vafrakökur til að tryggja að þú fáir bestu upplifunina á vefsíðunni okkar.  Ef þú heldur áfram gerum við ráð fyrir að þú samþykkir þessa skilmála. Lesa meira