Þorpið – Tengslasetur

Sjálfsvinsemd á gervihnatta öld

Halldora-Mark-6
Höfundur: Elsa Borg Sveinsdóttir, Co-Creator
@elsaborgsveins

Öll erum við einstök og ólík sem einstaklingar og foreldrar. Með tilkomu samfélagsmiðla hefur upplýsingaflæði til foreldra og uppalenda aukist sem um munar. Það hefur bæði bjartar hliðar og skuggahliðar. Björtu hliðarnar eru að foreldrar geta fundið lausnir, leiðir og ráð á svipstundu og oft kærkomin stuðning. Mín upplifun á skuggahliðunum eru þær að stuðningurinn varir kannski stutt, ráðunum rignir inn og það getur reynst yfirþyrmandi. Það er allskonar, gott, gagnlegt, dýrmætt og síðra.
Möguleikarnir á samanburði við aðra hefur einnig aukist og það læðast kannski í meira magni hugsanir að foreldrum eins og “ég er ekki nógu gott foreldri” “mér tekst aldrei að gera þetta eins og þessi á instagram/tiktok/facebook” “Ég geri ekki nógu mikið af þessu eða hinu með börnunum mínum”.

Sannleikurinn er sá að við getum ekki orðið eins og annað fólk og það getur verið krefjandi að framfylgja ráðum sem við höfum einungis lesið eða séð á skjá. Aðgengið er hinsvegar dásamlegt og getur reynst hjálplegt að fá innblástur og hugmyndir sem hægt er að aðlaga að sér og sínum. Það er þó ekki ólíklegt að samanburðar- og gagnrýnispúkar banki upp á hjá foreldrum í tíma og ótíma og ég þekki þá sjálf vel.
Við eigum öll misjafna daga og tímabil. Þessir púkar geta haft gríðarleg áhrif á líðan okkar og þar af leiðandi samskipti okkar og tengingu við börnin okkar. Það hafði gífurleg áhrif á sjálfsöryggi mitt sem foreldri og andlega líðan þegar ég hóf að tileinka mér sjálfsvinsemd (e. Self compassion). Við erum nefnilega öll mannleg, gerum mistök og lærum svo lengi sem við lifum.

Sjálfsvinsemd er orð sem ég kýs að nota því mér þykir það fanga kjarna þess en oft er talað um sjálfsmildi, samkennd í eigin garð, alúð í eigin garð o.fl. Með sjálfsvinsemd mætum við okkur þegar við eigum erfitt á sama hátt og við myndum mæta dýrmætum vin. Þegar púkarnir fyrrnefndu mæta á svæðið að þá gerir sjálfsvitundin okkur kleift að átta okkur og við sýnum okkur vinsemd, skilning og kærleika og minnum okkur á að við erum ekki ein. Kristin Neff hefur rannsakað ávinning sjálfsvinsemdar í áratugi og er hann mikill, þar má nefna heilt yfir meiri hamingju, heilbrigði og velgengi. Það er mér mikilvægt að flétta sjálfsvinsemd á ýmsu formi inn í flest sem ég geri hvort sem það sé í einstaklingsráðgjöf, á námskeiðum, vinnustofum, umræðuhópum eða öðru. 

Leiðarljós mitt er ávallt að styðja við foreldra á þeirra vegferð & vexti í uppeldinu

Fleiri greinar

Póstlisti

Skráðu þig á póstlista Þorpsins og fáðu upplýsingar um allt það nýjasta sem er framundan hjá okkur í viðburðum, námskeiðum og nýjungum í vefverslun.

Við notum vafrakökur til að tryggja að þú fáir bestu upplifunina á vefsíðunni okkar.  Ef þú heldur áfram gerum við ráð fyrir að þú samþykkir þessa skilmála. Lesa meira