Tengslasetur

FJÖLSKYLDUVERND, FEÐUR OG FRUMTENGSL – REYNSLUSAGA AF SJÁLFBOÐA- OG HUGSJÓNASTARFI

ob

Höfundur: Ólafur Grétar Gunnarsson, Co-Creator

@medgongufraedsla

Inngangur

Árið 2000 fengu feður á Íslandi sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs. Sama rétt fengu feður í Svíþjóð árið 1974. Frá árinu 1997 hefur verið kallað eftir fræðslu fyrir verðandi feður og ljóst er að þörf er á fræðslu fyrir báða foreldra til að undirbúa þá fyrir foreldrahlutverkið (122. löggjafarþing 1997–98. Þskj. 649 – 376. mál, e.d.). Því miður hefur víða ekki tekist sem skyldi að byggja leikskólaþjónustu á menntuðum leikskólakennurum. Báðir þessir þættir auka álag og streitu á fyrstu 1001 dögum barnsins. En ný lög um lengingu fæðingarorlofs og styttri vinnuviku, sem taka gildi á næsta ári, má efla enn frekar með aukinni fræðslu fyrir verðandi foreldra.

Afleiðingar og eftirköst efnahagshrunsins voru m.a. fleiri léttburafæðingar og hærri blóðþrýstingur meðal fæðingarkvenna. Landlæknir varaði við alvarlegum afleiðingum hrunsins á börn (Áhrif og afleiðingar kreppunnar á líðan og velferð barna, 2010). Afleiðingar streitu og álags á meðgöngu og í frumbernsku vekja svipaðar áhyggjur nú vegna Covid-19 og eru tilefni til aðgerða.

Feðrafræðsla fyrir verðandi feður

Áhugi fræðimanna á umfangi og eðli sjálfboðastarfs hefur farið vaxandi það sem af er öldinni og endurspeglast  m.a. í fjölda fræðigreina og bóka um viðfangsefnið (Musick og Wilson, 2008).

Hér á eftir segi ég frá mínu starfi á þeim vettvangi með það í huga að sýna hversu mikill áhugi og þörf er á fræðslu um foreldra- og fjölskyldufærni og hve miklu væri hægt að koma til leiðar ef unnið væri eftir þeim lögum sem sett hafa verið á Alþingi, en um þau eru höfð þessi orð:

Feðrafræðsla fyrir verðandi feður. Unnið verður að því að koma á sérstakri feðrafræðslu sem hluta af þeim undirbúningi sem verðandi foreldrum er boðið upp á.  (122. löggjafarþing 1997–98). Unnið skal að því að foreldrum standi til boða uppeldisráðgjöf og þjálfun í foreldrafærni með sérstökum námskeiðum sem hæfi mismunandi æviskeiðum í lífi barnsins. Einkum skal leggja áherslu á fræðslu og ráðgjöf fyrir foreldra fyrsta barns (Tillaga til þingsályktunar um aðgerðaáætlun til fjögurra ára til að styrkja   stöðu barna og ungmenna, 2007). Í nýju ákalli Geðhjálpar um leiðir til að styrkja geðheilbrigðiskerfið er kallað eftir stóraukinni fræðslu fyrir foreldra með áherslu á mikilvægi tengslamyndunnar fyrstu 1000 dagana í tilveru hvers barns (9 aðgerðir til að setja geðheilsu í forgang, e.d.). Sama kom fram í ákalli 1001 dags hópsins til þingmanna árið 2017 (1001 dagur, e.d.).

Geðverndarfélag Íslands hefur bent á mikilvægi aukins stuðnings við fjölskyldur á fyrstu 1001 dögum barnsins með margvíslegum hætti. Þörf er á öflugu fræðsluátaki fyrir almennig um þennan geysimótunartíma í lífi barnsins. Búa þarf til aðgengilegt fræðsluefni sem byggja mætti m.a. á skrifum Önnu Maríu Jónsdóttur og Sæunnar Kjartansdóttur. Leita má upplýsinga til ársins 2003 um ábendingu til valdhafa um fræðslu fyrir foreldra frá ÓB ráðgjöf (Ólafur Grétar Gunnarsson og Bjarni Þórarinsson, 2003). Valdhafar hafa talað um mikilvægi snemmtækrar íhlutunar og látið í ljós vilja til verka (Ásmundur Einar Daðason, 2018). En það er of lítið um efndir. Starf mitt hefur að meirihluta verið unnið í eigin tíma með hvatningu og í samstarfi við metnaðarfullt starfsfólk í hinum ýmsu opinberu störfum með stuðningi og styrkjum frá atvinnulífinu. Menntamálanefnd Alþingis hefur veitt verkefnunum styrk að upphæð tveim til fimm milljónum á ári árin 2003-2010. Með námskeiðunum sem greinarhöfundur hefur átt þátt í að innleiða frá árinu 1998 hafa um sex þúsund Íslendinga hlotið grundvallarfræðslu og lært um viðkvæmar þarfir ungbarna og álag ungbarnaforeldra. Athyglivert er að þátttaka kynja er nálægt því jöfn og öll námskeiðin eru 18 kennslustundir eða lengri.

Eigið nám og reynsla 

Mitt ferðalag á þessari vegferð hófst eftir að ég lauk þriggja ára námi í sálfræðilegri ráðgjöf við Spectrum Therapy í London árið 1999. Samhliða náminu sótti ég foreldranámskeið frá Family Caring Trust (FCT) fyrir foreldra leikskólabarna og kynntist starfi framsækins leikskóla. Þetta opnaði augu mín fyrir því hve illa undirbúinn ég hafði verið þegar ég varð faðir sjálfur, tíu árum áður. Á þessum 20 barna leikskóla sem ég vann á, var annar karlmaður, Mike, sem fékk að hjálpa til í sjálfboðavinnu hluta úr degi nokkra daga í viku. Hann og kona hans voru búin að ákveða að eignast barn og vildi hann fyrst læra meira um börn svo að hann gæti öðlast aukið öryggi og jafnað stöðu sína í foreldrahlutverkinu gagnvart eiginkonu sinni sem hafði bæði menntun og reynslu sem studdi hana. Hann trúði því að hann myndi geta gert betur og liðið betur í föðurhlutverkinu með því að læra af starfsfólkinu og hjálpa til við að annast börnin. Saga Mike og á hvaða forsendum hann kom inn í leikskólastarfið hafði mikil áhrif á mig.

Foreldrafræðsla fyrir foreldra leikskólabarna

Eftir að mér fór að líða betur í foreldrahlutverkinu, meðal annars fyrir tilstilli fræðslu og meðferðar og þess að hafa starfað á leikskólanum, vaknaði löngun mín til að geta miðlað fræðslu og reynslu til feðra og síðar sérstaklega til verðandi feðra. Árið 1998 vann ég að þýðingu og útgáfu á áðurnefndu námskeiði FCT, fyrir foreldra leikskólabarna, með styrk frá atvinnulífinu. Í framhaldinu hélt ég námskeið ásamt fleirum í samstarfi við foreldra og starfsfólk á leikskólum í Hafnarfirði, Reykjanesbæ og Reykjavík. Á námsárunum kynntist ég bókum þroskasálfræðingsins Dr. Jean Illsley Clarke og nýtti bækur hennar í minni eigin meðferðarvinnu sem var hluti af náminu. Hazelden stofnunina vantaði fræðsluefni til að vinna með aðstandendur alkahólista og skrifaði Jean bók sína Að alast upp aftur: annast okkur sjálf og börnin? (e. Growing Up Again: Parenting Ourselves, Parenting Our Children), að ósk Hazelden í Minnesota. Bókin kom út fyrst árið 1989 og var svo uppfærð árið 1998. Elstu heimildir um foreldrafræðslu eru frá Minnesota frá árinu 1919 (Jónína S. Jónasdóttir, 2005). Tímamót í Evrópu voru þegar D.W. Winnicott flutti fyrirlesturinn Talking to Parents í BBC um 1950. Árið 2002 stóð ég að þýðingu og útgáfu á bókinni. Í tilefni af útgáfu bókarinnar var haldin ráðstefna um foreldrahæfni þar sem Dr. Jean Illsley Clarke var aðalfyrirlesari (Gunnar Hersveinn, 2002). Ráðstefnan var haldin í samstarfi við Barnaverndarstofu, Félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands, Heimili og skóla, Kennaraháskóla Íslands og Umboðsmann barna. Ráðstefna af þessu tagi um málefnið hafði ekki verið haldin áður. Hún vakti athygli og var umfjöllunarefni í Kastljósi á RÚV þann 21. nóvember 2002. Það varð til þess að að Dr. Jean Illsley Clarke kom aftur næstu tvö árin og hélt 60 kennslustunda þjálfunarnámskeið fyrir fagfólk með samtals 48 þátttakendum. Í framhaldi voru haldin foreldranámskeið fyrir fagfólk og foreldra hjá sveitarfélögunum Akureyrarbæ, Kópavogsbæ, Mosfellsbæ, Reykjavík, Reykjanesbæ, Vestmannaeyjum og víðar. Sum þessara sveitarfélaga voru að halda slík námskeið í fyrsta sinn (Að alast upp aftur, 2004).

Fjölskyldufræðsla í skólakerfinu

Árið 1996 heyrði ég af fræðsluverkefni frá Wisconsin um umönnun ungbarna fyrir unglinga með notkun ungbarnahermis. Árið 2004 lét ég verða af því að kynna efnið á fundi hjá Landlækni en verkefnið var þá í gangi í Noregi. Í umsögn Landlæknisembættisins um verkefnið kemur fram: „Landlæknisembættið mælir með þessu námsefni sem einni leið til að auka þekkingu og skilning ungs fólks á ábyrgðinni sem felst í foreldrahlutverki. (Skjal í eigu greinarhöfundar, 2004).

Í framhaldi voru haldin tvö 24 kennslustunda námskeið fyrir fagfólk um hvernig nota má ungbarnahermi til að gefa unglingum innsýn í kröfur ungbarnaumönnunar. Námskeiðið var haldið í samstarfi við Hjúkrunarfélag Íslands og sóttu alls 40 sérfræðingar námskeiðin. Á fimmta tug íslenskra grunn- og framhaldsskóla hafa tekið þátt í þessu frumkvöðlastarfi sem menntamálanefnd Alþingis studdi fram til ársins 2010. Smáraskóli í Kópavogi var fyrsti skólinn á landinu til að bjóða nemendum fræðsluna í metnaðarfullu samstarfi starfsfólks skólans við heilsugæsluna. Cynthia Lisa Jeans skólafélagsráðgjafi stjórnaði verkefninu innan skólans í samstarfi við kennara unglingadeildar með dyggum stuðingi og þátttöku Valgerðar Snæland Jónsdóttur skólastjóra. Fjöldi grunnskóla í Kópavogi og víðar fylgdi á eftir. Það að fjárstuðningi ríkisins var hætt hafði áhrif á starfið. Skólaárið 2019-2020 tóku átta skólar víða um land þátt. Óvissa er með starfið skólaárið 2020-2021 vegna Covid 19.

Fræðsla fyrir barnshafandi pör sem höfðar til þarfa foreldra óháð kyni


Ég kynntist fyrst fjölskyldufræðum Dr. John Gottman í námi árið 1999. Árið 2004 hóf ég að kynna þau hér á landi í samstarfi við þverfaglegan hóp sérfræðinga. Hið opinbera undir stjórn Félagsmálaráðuneytisins hélt ráðstefnu um foreldrahæfni árið 2008 þar sem ég flutti fyrirlestur um frumforvarnarfræðslu byggða á fjölskyldufræðum Gottman sem höfða til þarfa foreldra óháð kyni (Ráðstefnuboð – Efling foreldrahæfni, (2008). Í framhaldi var barnshafandi pörum og foreldrum ungbarna í Reykjavík, Kópavogi og Reykjanesbæ, í samstarfi við sveitarfélögin og heilsugæsluna boðið á Gottman námskeiðið Bringing Baby Home (BBH) sér að kostnaðarlausu (Námskeið fyrir verðandi foreldra, 2009). Fræðslan styður við geðheilbrigði foreldra óháð kyni og uppeldisaðstæðum með því að hjálpa þeim að takast á við streitu og álag sem fylgir meðgöngu og foreldrahlutverki og neikvæðum afleiðingum ójafnvægis milli vinnu og heimilis. Námskeiðið byggir á rannsóknarniðurstöðum John og Julie Gottman, oft nefnd þekktasta meðferðarpar heims. Þau eru viðurkennd fyrir vísindastörf sín og þróunarverkefni á sviði stöðugleika í hjóna- og parasamböndum og hvernig fyrirbyggja má að álag og ágreiningur valdi togstreitu í parasambandi og foreldrahlutverki (Shapiro og Gottman, 2005). Rannsóknir Gottman hafa sýnt að líkindi eru á að sjö af hverjum tíu foreldrum upplifi minni ánægju í parasambandinu fyrstu þrjú árin eftir fæðingu barns. Streitan og álagið veldur því að ágreiningur allt að áttfaldast.
Á því álagstímabili eru hvað mestar líkur á að barn þurfi að ganga í gegnum það mikla álag sem skilnaður foreldra er (Shapiro og Gottman, 2005). Efni námskeiðsins var í samræmi við áðurnefnd lög frá árunum 1997 og 2007. Það bauðst foreldrum árin 2008-2009 og til stóð að bjóða það áfram en svo kom efnahagshrunið og þrátt fyrir augljósa þörf var þetta mikilvæga starf hjá sveitarfélögum lagt af. Starfið hélt þó áfram til ársins 2014, fyrst í samstarfi við Rauða Krossinn (Barnið komið heim. (e.d.). og síðar í samstarfi við Rannsóknastofnun í barna- og fjölskylduvernd (RBF) og Velferðarsjóð barna (Að verða foreldri, 2014).

Börn þurfa tvo fullorðna


Foreldrahlutverkið er verðmætt tækifæri sem fólk fær til þroska og sjálfsstyrkingar. Að vera góður uppalandi er ekki sjálfgefið eða meðfætt. Samband foreldra og barna er gagnvirkt og foreldrar þurfa að vera sem best búnir til að lesa í þarfir barnsins og mæta þeim. Þegar Hugó Þórisson var að kynna foreldranámskeið sem hann og Vilhelm Norðfjörð héldu saman sagði hann að við þyrftum að hætta að kenna foreldrum um og kenna þeim í staðinn. Í umræðu um foreldravald þarf að fylgja ábyrgð valdhafa. Sú ábyrgð felur í sér að tryggja foreldrum fræðslu svo þeir hafi betri forsendur til að standa undir kröfum og áhrifavaldi foreldrahlutverksins.  Þáttur sem ýtir undir að umönnun og uppeldi lendir meira á herðum mæðra (víðast hvar í heiminum) tengist skorti á löggjöf um að feður fái skipulega fræðslu og geðheilbrigðisþjónustu með tilkomu foreldrahlutverksins. Hér á landi líkt og á Norðurlöndum örlar þó á breytingu í þessum efnum sbr. áðurnefnda löggjöf. Reynslan sýnir að ungt fólk vill jafnari heim og að kynin taki jafnari ábyrgð í fjölskyldumyndun. Með lagabreytingum um fæðingarorlof hefur vaxandi fjöldi feðra farið að taka feðraorlof og vilja taka virkari þátt í uppeldinu. Nútíma karlmenn vilja byggja upp traust og mótandi samband við börnin sín, er umhugað um tengslamyndun og að taka virkan þátt í uppvexti þeirra og þroska. Þetta kemur fram m.a. í auknum áhuga feðra á jafnari ábyrgð á börnum sínum eftir skilnað. Það tengdist breyttum viðhorfum og löggjöf um sameiginlega forsjá, fyrst sem möguleika (1998) og síðan sem meginreglu (2006) (Sigrún Júlíusdóttir og Nanna K. Sigurðardóttir, 2000; Sigrún Júlíusdóttir og Sólveig Sigurðardóttir, 2013). En hvað þýðir það fyrir karlmenn? Hvar eru fyrirmyndirnar sem geta kennt nýjum feðrum hvernig það hlutverk virkar? Hvernig er maður góður pabbi árið 2020? Ef við lítum á hefðbundnar samfélagslegar væntingar til karlmanna, þá snúast þær mikið um líkamlegan styrk og að færa björg í bú. Hér er fátt um fína drætti hvað varðar bleyjuskipti, tilfinningalegan stuðning og skilning. Karlmenn eru nú í miðjum klíðum að móta nýja nútímalega karlmennsku. Karlmennsku sem einkennist af tilfinningalegum styrk og jafnrétti innan sem utan heimilisins. Það að huga að undirbúningi fyrir föðurhlutverk er viðurkennd leið til að tryggja börnum allavega tvo fullorðna. Aðgerðarleysið leiðir oftar en ekki af sér að móðirin sér meira um umönnunina. Þannig má líta á aðgerðarleysi valdhafa í að veita feðrum aðstoð og fræðslu sem styðjandi afl við hefðbundið kynhlutverk mæðra og viðhorf eldri kynslóða en dragbít á kynjajöfnuð og framfarir.

Geðheilsa foreldra


Árið 2021 styttist vinnudagurinn og fæðingarorlofið lengist. Ég minni aftur á að feður fengu ekki sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs fyrr en árið 2000. Sama rétt fengu feður í Svíþjóð árið 1974 (State of Nordic Fathers, 2019). Á Íslandi og í Svíþjóð taka feður um 30 prósent af heildarorlofsdögum. Í Danmörku og Finnlandi taka feður um 11 pró­sent af heildarorlofsdögunum. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri norrænni skýrslu um feðraorlof þar sem byggt er á upplýsingum frá um 7.500 norrænum foreldrum og viðhorfi þeirra til fæðingarorlofsins. (Guðrún Hálfdánardóttir, 2019). Rannsóknir sýna að feður eru nú jafn mikilvægir fyrir geðheilsu og persónustyrk barna og mæður. Sem dæmi þá hefur þunglyndi og kvíði hjá feðrum strax eftir fæðingu mikil áhrif á börnin. Þau eru í meiri áhættu fyrir tilfinninga- og hegðunarvanda síðar á ævinni, óháð heilsu móðurinnar. Að verða foreldri getur verið yfirþyrmandi upplifun. Vilja og þrá til að skila verkinu vel úr hendi lýstur saman við óvissu og hræðslu við nýtt verkefni. Verkefni sem veldur stórfelldum breytingum á lífinu: vökunætur, hormónarússíbani og fríar stundir sem teljast í sekúndum. Þetta tilfinningalega álag reynist mörgum erfitt . Um 14% mæðra þjást af fæðingarþunglyndi, sem m.a. lýsir sér í þreytu og skömm yfir því að finna ekki betri tengingu við barnið. Minna þekkt er að um 10% feðra þjást einnig af fæðingarþunglyndi (Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir, 2019). Ingólfur V. Gíslason dósent í félagsfræði hefur bent á að á síðustu árum hefur þátttaka íslenskra feðra í umönnun barna sinna farið verulega vaxandi. Á sama tíma hefur lítið sem ekkert verið gert til að sinna þörfum þeirra fyrir fræðslu og aðstoð í hlutverki sem er töluvert annað en feðra þeirra. Aukin fræðsla, aðstoð og upplýsingar hafa sýnt sig hafa jákvæð áhrif á þessa feður og þar með börn þeirra og fjölskyldu alla. Fæðingarorlof feðra á Íslandi hefur valdið byltingarkenndum breytingum. (Munnleg heimild) Til að auka líkur föður á að hafa getu til að vernda börn og styðja viðkvæma móður þarf hann fræðslu og geðheilbrigðisþjónustu. Rannsóknir á áðurnefndu Gottmannámskeiði (BBH) hafa sýnt að hjá þátttakendum dregur úr ágreiningi og streitu í parasambandinu  sem m.a. gerir þá hæfari til að takast á við kröfur um samþættingu vinnu og heimils. Feður sögðust taka meiri þátt í foreldrahlutverkinu og fyndu meiri ánægju og upplifðu jákvæðara mat á framlagi sínu sem foreldrar. Einnig kom fram að þeir sýndu síður merki um depurð, kvíða og aðrar geðraskanir eftir að barnið fæddist (Shapiro og Gottman, 2005). Annar og þriðji aðili sem koma við sögu við umönnun og uppeldi barna eru mögulega amma og afi. Einn styrkleiki þjóðarinnar samkvæmt rannsóknum Dr. Sigrúnar Júlíusdóttur eru tíðari samskipti á milli kynslóða hér á landi heldur en á hinum Norðurlöndunum (Sigrún Júlíusdóttir, 2001). Hin mikilvæga þriðja manneskjan er leikskólinn sem gæti gripið barnið þegar foreldri eða foreldrar eru í viðkvæmri stöðu.

Heckman kúrfan


James Heckman, Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, sýndi fram á með svokallaðri Heckman kúrfu (The Heckman curve; sjá mynd) að því fyrr sem fjárfest er í ævi hvers og eins með snemmtækri íhlutum til stuðnings og þroska, því meiri verður sparnaður í kerfinu í langtímaljósi

(Sólrún Erlingsdóttir og Anna María Jónsdóttir, 2020). Í breska þinginu hefur í nokkur ár verið rætt um nauðsyn þess að veita verðandi og nýbökuðum feðrum og mæðrum og ungum börnum þeirra aukinn stuðning. Kostnaður vegna ýmissa geðrænna vandamála sem rekja má til áfalla í æsku hefur rokið upp þarlendis og í umræðum árið 2014 var því spáð að frá og með árinu 2024 geti sveitarfélög í Bretlandi ekki lengur staðið undir hefðbundinni þjónustu vegna aukins kostnaðar við einstök mál (Early Childhood Development, 2014). Í þeirri umræðu er gagnrýnt harðlega að sveitarfélög verji litlu sem engu fjármagni í stuðning og fræðslu á 1000 mikilvægustu ævidögum barnsins.

Tafla 1 Heckmankúrfan

Fjárveiting per stöðugildi á leikskólum 15% af háskóla
Árið 2019 vörðu íslensk stjórnvöld 50 milljörðum króna í leikskólastarf og 126 milljörðum króna í háskólastarf (Hagstofan, 2019). Á eftirfarandi töflum sem finna má á vef Hagstofu Íslands má sjá fjölda nemenda í leikskólum annars vegar og háskólum hins vegar árið 2019.

Tafla 2 Nemendur í leikskólum 2019

Tafla 3 Nemendur í háskólum 2019

Það þýðir að fjárveiting á bakvið hvert stöðugildi í leikskólum er minna en 15% af fjárveitingu á bak við hvert stöðugildi í háskólum. Þegar horft er á Heckmankúrfuna sést hvaða verk þarf að vinna á sviði mennta- og heilbrigðismála. Í tölum Hagstofunnar frá árinu 2009 var hlutfall menntaðra leikskólakennara 31% af starfsfólki leikskóla hjá Reykjavíkurborg. Í dag er hlutfallið 21%. Samkvæmt lögum um leikskóla eiga 67% starfsmanna að lágmarki að vera menntaðir leikskólakennarar. Horfast þarf í augu við að aðgerðir stjórnvalda eru ekki að skila ásættanlegum forsendum fyrir leikskólastarf. Leita þarf leiða til að fylgja eftir stefnu Reykjavíkurborgar um hærra hlutfall fagmenntaðra (Breyttur opnunartími leikskóla, 2020). Þættir sem geta haft áhrif þar eru minnkað álag með styttingu vinnuviku og innleiðingu handleiðslukerfis. (Sigrún Júlíusdóttir, 2020). Foreldrum sem sækja jafnréttisfræðslu á meðgöngu og eftirfylgni gæti boðist að fá sjálf fjármagnið sem leikskólaþjónusta kostar og annast barnið sjálf til tveggja ára aldurs. „Frá sjónarhóli barnsins er mjög margt sem mælir með að það sé sem mest í umsjá foreldra sinna fyrstu tvö árin. Þetta er sá tími sem barnið er að kynnast sjálfu sér og umheiminum og þá þarf það fyrst og fremst öryggi sem fæst með ást og samfelldum tengslum við sama fólkið. Í þeim tengslum fer fram mikilvægasta nám barnsins því þar lærir það að þekkja sjálft sig (Sæunn Kjartansdóttir, 2015, Fyrstu 1000 dagarnir. Barn verður til). Með þessari stefnubreytingu væri verið að auka möguleika foreldra á að annast börnin sín meira sjálf og styrkja tengsl enn frekar sem er í anda þess sem foreldrar sækjast eftir í auknum mæli (Um verkefnið, e.d.). Mikilvægur liður í þessari nýsköpun er að það skapast betri forsendur fyrir leikskólastarfsfólk að sinna börnum í viðkvæmum aðstæðum. Aðgerðin skilar sér í minni þörf fyrir starfsfólk og aukna möguleika fyrir menntaða leikskólakennaraa til að njóta sín í starfi. Þessir auknu og mikilvægu valmöguleikar þýða ekki kostnaðarauka í leikskólaþjónustu.

Barnamálaráðherra veitir von


Hér er lag fyrir stjórnvöld að leggja hönd á plóg fyrir nýja foreldra og sérstaklega feður. Sá valdhafi sem getur haft áhrif og gefur von er Ásmundur Einar Daðason barnamálaráðherra. Hann sagði í viðtali um stöðu barna árið 2018: „Þetta er langtímaverkefni og ég er sannfærður um að ef við grípum þessi ungmenni snemma þá getum við gjörbreytt stöðu þeirra. En þetta er ekki gert á fjórum árum heldur miklu frekar á 10-15 árum (Guðrún Hálfdánardóttir, 2018). Mánuði síðar gerði Barnaverndarnefnd Reykjanesbæjar bókun, sem óhætt er að telja til tímamóta, því þar var lagt til að bæjarstjórn Reykjanesbæjar leggði til fjármagn sem næmi einu dýru barnaverndarmáli á ári í snemmtæka íhlutun (249. fundur, 2018). Í apríl á þessu ári innleiddi félags-og barnamálaráðherra  sérhæfða skilnaðarráðgjöf að danskri fyrirmynd SES, Samvinna eftir skilnað – barnanna  vegna. Hugmyndin og umsjón framkvæmdar eiga Dr. Sigrún Júlíusdóttir og Gyða Harðardóttir félagsráðgjafar. Fræðsluefnið og þjálfunin byggir á nýjustu þekkingu, á sannreyndum grunni rannsókna og reynslu fagfólks. Með verkefninu  er innleitt og þróað nýtt vinnulag í félagsþjónustu með markvissri  félagslegri ráðgjöf í skilnaðarmálum -og vinna þannig að virkara foreldrasamstarfi og órofnum tengslum við báða foreldra , barnanna vegna (Samvinna eftir skilnað – barnanna vegna, 2020).

Ef við ætlum að ná markmiðum barnmálaráðherra á 10-15 árum þurfum við að hafa úthald og styrk til að horfast í augu við þá þætti sem þarf að breyta. Í framhaldi af sérhæfðri skilnaðarráðgjöf er kallað eftir sérhæfðri fræðslu og ráðgjöf til að fyrirbyggja skilnað hjá ungbarnaforeldrum.

400 milljarðar í menntakerfið


Á árinu 2021 munu valdhafar verja meira en 400 hundruðum milljörðum í leik-, grunn-, framhalds- og háskóla (Fjárlög fyrir árið 20201, 2020). Að auki verður mörgum tugum milljarða varið í hinar ýmsu aðgerðir vegna takmarkana sem núverandi kerfi hefur. Svo lítið sem 1% af þessum fjármunum gætu gjörbylt kerfinu þannig að mennta- og heilbrigðiskerfið gæti sinnt hlutverki sínu betur. Þekkingin sem þarf er til staðar, aðeins þarf pólitískt hugrekki til að ráðstafa fjármagninu á þann hátt  að það hafi mest áhrif. Áætlun barnamálaráðherra í að gjörbreyta stöðu ungmenna varð hvati að smásögu sem ég skrifaði. Sagan heitir Faðirinn og gerist árið 2030 þegar erfiðum fjölskyldumálum hefur fækkað um meira en helming. Í sögunni er vitneskja 21. aldarinnar um hvernig styrkja megi fjölskyldur loksins nýtt. Þær aðgerðir ganga í fyrsta lagi út á fræðslu um fjölskyldumál í skólum, í öðru lagi fræðslu fyrir verðandi foreldra og fyrir foreldra fyrstu árin í nýju hlutverki sem þjónar þörfum beggja kynja og í þriðja lagi stuðning og ráðgjöf til foreldra, velji þeir að ala barnið upp á tveimur heimilum.

Lokaorð

Einu sinni snemma á 20. öld, þá fór blaðamaður að taka viðtal við merkisbónda í afskekktri sveit. Hann var þá miðaldra og bjó þokkalegu búi og átti mikið af börnum, eitthvað á annan tug, eins og þá gerðist ennþá. Sum þeirra voru enn mjög ung, svo líklega hefur hann átt fremur unga konu. Blaðamaðurinn spjallaði lengi við bónda um búskapinn, veðurfar og pólitík og varð bónda aldrei orða vant. Á meðan voru yngstu börnin á kreiki kringum þá, kallana, og það vakti athygi blaðamannsins að bóndi virtist lítið sem ekkert taka eftir þeim, hann sinnti þeim að minnsta kosti ekkert þótt þau væru nánast að klöngrast yfir hann stundum. Að lokum fór blaðamaðurinn að taka saman pjönkur sínar, en sagði að síðustu: „Ja, svo ertu greinilega mikill barnakarl, ha?“ Og bóndi smellti í góm, leit enn ekki á börnin sín, en sagði eins og annars hugar: „Æjá, það er gaman að þessum litlu greyjum.“

Mér hefur alltaf fundist þessi saga merkilegt dæmi um það sinnuleysi og mér liggur við að segja áhugaleysi sem alltof lengi bar á hjá Íslendingum, auðvitað sérstaklega íslenskum feðrum, í garð barna sinna. Hvernig ætli börn þessa gamla bónda hafi minnst föður síns? Var hann bara einhver þúst í fjarska? Og ætli hafi einhvern tíma runnið upp fyrir þessum föður að hann hefði betur sýnt börnunum meiri eftirtekt og sinnt þörfum þeirra almennilega? En hann kunni það eflaust ekki. Á sínum tíma hneigðust menn til að fussa og sveia þegar minnst var á fræðslu fyrir foreldra og verðandi foreldra. Átti ekki öllum að bera í blóð borið hvernig ætti að hugsa um „þessi litlu grey“, eins og bóndinn komst að orði? En það er sannarlega ekki öllum í blóð borið, og sem betur fer erum við farin að átta okkur á því. Og áhuginn er fyrir hendi, og fólk er blessunarlega um það bil að hætta að skammast sín fyrir að þurfa og biðja um fræðslu.

Hér hef ég fjallað um móttökur unglinga og barnshafandi para við fræðslu, sem þessum hópum hafði ekki staðið til boða áður. Og þær móttökur sýna til dæmis að fólk hefur áhuga á grunnþekkingu á geðheilbrigði. Við þessu þurfa valdhafar að bregðast og meðtaka áhrif (e. accepting influence). Einn af styrkleikum velferðarkerfisins er að íslenskir feður taka nú sjálfstætt fæðingarorlof í sama mæli og feður í Svíþjóð þar sem orlofið hefur verið frá árinu 1974, eins og ég sagði í byrjun. Hugsið ykkur, það tók okkur aldarfjórðung að ná þeim áfanga sem Svíar náðu 1974. Aldarfjórðung! Ímyndið ykkur öll þau sambönd feðra við börn sín sem fóru forgörðum á þeim tíma! En betra var seint en aldrei, og núna má tryggja ávinning samfélagsins af hinum nýju lögum sem taka gildi árið 2021 um lengingu fæðingarorlofs og styttri vinnuviku enn frekar. Og hvernig? Jú, með aukinni fræðslu fyrir foreldra. Umræða um mikilvægi þess að pör undirbúi sig vandlega fyrir barneignir, með því að afla sér fræðslu, var ekki til staðar árið 2008. Í undirbúningsfræðslu Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (HH) í dag er fjallað um mikilvægi undirbúnings fyrir tilkomu barns. Allt í einu er nýr einstaklingur mættur í samband sem hingað til hefur byggst upp á tveimur einstaklingum. Auðvitað breytist allt, og auðvitað þarf fólk að vera mjög vel undirbúið. Það segir sig kannski sjálft en samt er nú gott að hafa rannsóknir eins og þær sem Gottman gerði til að sýna okkur það svart á hvítu. Tala nú ekki um þegar börnunum fjölgar kannski. Í framtíðaráætlunum HH er stefnt að fræðslu um parasambandið og ekki síst föðurhlutverkið (Málþing um foreldra og ungbörn, 2018). Hugsið ykkur hvað gamli bóndinn hefði haft gott af því að líta á börnin sín sem sjálfstæða einstaklinga með þarfir og þrár, en ekki bara sem einhver tilfallandi „grey“ sem þyrfti að umbera og mætti í mesta lagi hafa „gaman“ af. Ef hann hefði nú bara haft rænu á því eins og hann Mike vinur minn að taka sér frí frá bústörfunum og fá sér vinnu á barnaheimili um stund. Fyrir nú utan ef börnin – þessi „litlu grey“ – hefðu skynjað að faðir þeirra vekti yfir velferð þeirra. Þetta eru mjög mikilvæg skref. Bent hefur verið á þörf fyrir uppstokkun á samstarfi ríkis og sveitarfélaga í mennta- og heilbrigðismálum. Og já, það er brýnt er að sveitarfélög verji takmörkuðum fjármunum eftir bestu mögulegu vitund, sbr. Heckman kúrfuna, og endurskoði og efli þjónustuval varðandi börn á fyrstu æviárunum. Í kreppum og í kjölfar þeirra eru tækifæri til að breyta, og breyta rétt, og þá höfum tíma til að leiðrétta. Við Íslendingar erum nógu fá til að hanna heildræna og samræmda mennta- og heilbrigðisstefnu. Látum það verða gjöfina sem Covid 19 gefur okkur. Ég minntist í byrjun á að hrunið 2008 hefði hefði haft slæm áhrif á börn og nýbura. Látum ekki einhvern standa í ræðustól eftir 10 ár og tala um slæm áhrif Covid 19 á börn og uppeldi. Grípum til aðgerða strax.

Heimildaskrá

Að alast upp aftur. (2004, 12. október). Akureyrarbær. https://www.akureyri.is/is/frettir/ad-alast-  upp-aftur
Að verða foreldri. (2014, 20. nóvember). Háskóli Íslands – Rannsóknarstofnun í barna- og            fjölskylduvernd. http://rbf.hi.is/ad_verda_foreldri
Áhrif og afleiðingar kreppunnar á líðan og velferð barna. (2010, 23. febrúar). Stjórnarráð Íslands. https://www.stjornarradid.is/verkefni/felags-og-            fjolskyldumal/velferdarvaktin/fundargerdir/nanar/2010/02/23/Ahrif-og-afleidingar-            kreppunnar-a-lidan-og-velferd-barna/
Ásmundur Einar Daðason. (2018, 2. maí). Börnin okkar – 8. maí. Stjórnarráð Íslands.            https://www.stjornarradid.is/raduneyti/felagsmalaraduneytid/felags-og-      barnamalaradherra/stok-raeda-felags-og-barnamalaradherra/2018/05/02/Bornin-okkar-8.-     mai/
Barnið komið heim. (e.d.). Rauðakrosshúsið. https://www.stjornarradid.is/media/velferdarraduneyti-            media/media/velferdarvakt09/barnidkomidheim_nov_09.pdf
Breyttur opnunartími leikskóla. (2020, 14. janúar). Reykjavík. https://reykjavik.is/frettir/breyttur- opnunartimi-leikskola

Early Childhood Development. (2014, 30. janúar). Parliament UK.            https://publications.parliament.uk/pa/cm201314/cmhansrd/cm140130/halltext/140130h00  01.htm
Fjárlög fyrir árið 20201. (2020). Stjórnarráð Íslands.            https://www.stjornarradid.is/verkefni/efnahagsmal-og-opinber-fjarmal/fjarlog/fjarlog-        fyrir-arid-2021/
Guðrún Hálfdánardóttir. (2018, 11. apríl). „Hvert barn er svo dýrmætt“. mbl.is.            https://www.mbl.is/born/frettir/2018/04/11/hvert_barn_er_svo_dyrmaett/
Guðrún Hálfdánardóttir. (2019, 14. nóvember). Óttast um starfsframa fari þeir í orlof. mbl.is.            https://www.mbl.is/frettir/innlent/2019/11/14/ottast_um_starfsframa_fari_their_i_orlof/
Gunnar Hersveinn. (2002, 12. desember). Aðferð til að endurreisa sjálfan sig. mbl.is.            https://www.mbl.is/greinasafn/grein/703685/?fbclid=IwAR24t7-            3mO1coXZpbYx6VUaz5_3bZ0naVRHxG4moAyHl1bTmvZpEHxxr7V4
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir. (2019, 16. janúar). Skima ætti fyrir fæðingarþunglyndi hjá        feðrum. RÚV. https://www.ruv.is/frett/skima-aetti-fyrir-faedingarthunglyndi-hja-fedrum
Jónína S. Jónasdóttir (2005). Notagildi/árangur foreldrafræðslunámskeiða: Könnun á       sjónarhorni foreldra. Óbirt lokaverkefni til embættisprófs í ljósmóðurfræði, Háskóli     Íslands, Reykjavík.
Málþing um foreldra og ungbörn. (2018, 23. ágúst). Geðverndarfélag Íslands.            https://gedvernd.is/malthing-um-foreldra-og-ungborn-myndbond-fra-erindum/
Musick, M. A. og Wilson, J. (2008). Volunteers. A Social profile. Bloomington: Indiana   University Press.
Námskeið fyrir verðandi foreldra. (2009, 12. mars). Barnaverndarstofa.      https://www.bvs.is/tolfraedi-og-utgefid-efni/frettir/frettasafn/nr/381
Ólafur Grétar Gunnarsson og Bjarni Þórarinsson. (2003). Ósk um styrk vegna leiðbeinendanáms.            [Styrkumsókn] ÓB-ráðgjöf.
Ráðstefnuboð – Efling foreldrahæfni. (2008). Barnaverndarstofa.    http://www.bvs.is/media/files/file637.pdf
Samvinna eftir skilnað – barnanna vegna. (2020, 1. apríl). Stjórnarráð Íslands.            https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2020/04/01/Samvinna-eftir-        skilnad-barnanna-vegna/
Shapiro, A. F. og Gottman, J. M. (2005). Effects on Marriage of a Psycho-Communicative-          Educational Intervention With Couples Undergoing the Transition to Parenthood,         Evaluation at 1-Year Post Intervention. The Journal of Family Communication, 5(1), 1-          24. https://www.johngottman.net/wp-content/uploads/2011/05/Effects-on-marriage-of-a-   psycho-communicative-educational-intervention-with-couples-undergoing-the-transition-     to-parenthood-evaluation-at-1-year-post-intervention.pdf
Sigrún Júlíusdóttir. (2001). Fjölskyldur við aldahvörf. Reykjavík: Háskólaútgáfan.
Sigrún Júlíusdóttir. (2020). Handleiðsla – Til eflingar í starfi. Reykjavík: Háskólaútgáfan.
Sigrún Júlíusdóttir og Nanna Sigurðardóttir. (2000). Áfram foreldrar. Rannsókn um sameiginlega forsjá og velferð barna við skilnað foreldra. Reykjavík: Háskólaútgáfan.
Sigrún Júlíusdóttir og Sólveig Sigurðardóttir. (2013). Eftir skilnað. Reykjavík: Háskólaútgáfan.
Sólrún Erlingsdóttir og Anna María Jónsdóttir. (2020, 31. mars). Lengi býr að fyrstu gerð.            Geðverndarfélag Íslands. https://gedvernd.is/blogg/lengi-byr-ad-fyrstu-gerd/
State of Nordic Fathers. (2019, 14. nóvember). Norrænt samstarf.   https://www.norden.org/is/node/39193
Tillaga til þingsályktunar um aðgerðaáætlun til fjögurra ára til að styrkja  stöðu barna og            ungmenna. (2007). Stjórnarráðið.https://www.stjornarradid.is/media/velferdarraduneyti          media/media/acrobat-skjol/tal_um_adgerdaaatlun_vegna_barna_og_ungmenna.pdf

Um verkefnið. (e.d.). Þorpið. http://tengslasetur.is/about/

1001 dagur. (e.d.). Barnaheill. https://www.barnaheill.is/is/starfid-okkar/samstarfshopar/1001-      dagur

  1. löggjafarþing 1997–98. Þskj. 649 – 376. mál. (e.d.). Alþingi. https://www.althingi.is/altext/122/s/0649.html
  2. fundur. (2018, 14. maí). Reykjanesbær. https://www.reykjanesbaer.is/is/stjornsysla/stjornsyslan/fundargerdir/barnaverndarnefnd- 249-fundur-3

9 aðgerðir til að setja geðheilsu í forgang. (e.d.). 39.is. https://39.is/

(Skjal í eigu greinarhöfundar, 2004)

Grein frá Geðverndarfélagi Íslands

Fleiri greinar

Póstlisti

Skráðu þig á póstlista Þorpsins og fáðu upplýsingar um allt það nýjasta sem er framundan hjá okkur í viðburðum, námskeiðum og nýjungum í vefverslun.

Við notum vafrakökur til að tryggja að þú fáir bestu upplifunina á vefsíðunni okkar.  Ef þú heldur áfram gerum við ráð fyrir að þú samþykkir þessa skilmála. Lesa meira