Tengslasetur

Þegar ég varð mamma í fyrsta skipti…

Rakel og mamma

Höfundur Sólveig Kristín Björgólfsdóttir

Iðjuþjálfi og tveggja barna móðir

Þegar ég varð mamma í fyrsta skipti, nýorðin 22 ára, þá vissi ég ekkert hvað ég var að gera.  Ég skildi ekki afhverju ég horfði á þessa yndislegu stelpu og hugsaði „mig langar að gera allt annað en að vera hérna með þér.“  Í dag veit ég að það var fæðingarþunglyndi og það að ég bjó við aðstæður sem voru ekki þær bestu, hvorki fyrir hana né mig.

Ég einangraði mig, fór lítið út og átti erfitt með að sinna sjálfri mér. En ég sinnti henni. Ég gaf henni vel að borða, baðaði, las tvær bækur á hverju kvöldi, söng fyrir hana og dundaði í allskonar föndri. En við horfðum líka mikið á teiknimyndir og fórum lítið út.  Ég talaði mig niður allan tímann, leið eins og ég væri föst í búri og var varla á staðnum þegar við vorum saman. Frá því að við fórum á fætur taldi ég mínúturnar þangað til að hún myndi leggja sig og svo þangað til að háttatíminn kæmi. Þetta litla ljós sem átti allt það besta í heiminum skilið, og hún fékk mig. Ég skildi ekki hvernig lífið gat gert henni þetta.

Foreldrar mínir bjuggu fyrir sunnan og ég á Akureyri á þessum tíma. Þegar mamma hringdi, sem ég vissi að hafði miklar áhyggjur af mér, sagði ég alltaf að það væri „allt í lagi.“  Þegar hún spurði út í daginn þá laug ég oftar en ekki, sagði að við hefðum farið út og að ég væri búin að taka til. Ég hafði ekki gert það, ég var ekki búin að fara út, ég var ekki búin að fara í sturtu í viku og ég hafði ekki borðað neitt að viti í nokkra daga af því að ég vildi ekki fara út í búð, því þar gæti ég rekist á fólk sem myndi strax sjá í gegnum mig og hversu slæm mamma ég væri. 

Þegar ég horfi til baka sé ég hversu ótrúlega brotin ég var og einmana. Ég vildi ekki vera byrði á neinum og fannst eins og ég ætti að kunna að vera mamma hennar. Að ég gæti ekki sagt upphátt að oftast langaði mig bara ekkert að eiga hana. 

Þegar litla elsku fallega ljósið mitt var að verða tveggja ára ákvað ég svo að ég gæti þetta ekki lengur, ég væri ömurleg mamma sem ætti hana ekki skilið og hún væri mun betur sett án mín. Ég var líka búin að sannfæra mig um að það væri sjálfselska af fólkinu mínu að vilja hafa mig hér á þessari jörð þegar dóttir mín væri betur sett án mín og ég betur geymd í gröfinni.

En eitthvað gerðist þar sem ég sat búin að undirbúa brottför.  Eins og lítil rödd segði að þetta væri ekki rétta leiðin og að ég gæti rétt út höndina og beðið um hjálp. Ég hafði samband við konu frænda míns, sem hefur verið mikill klettur fyrir mig í gegnum árin, meiri en mér hefur nokkurn tíman þótt ég eiga skilið. Hún bjargaði mér og kom mér inn á geðdeild.  Án hennar væri ég líklega ekki hér í dag.

Ég var þar í 3 vikur, fékk stuðning og útskýringu á því af hverju mér var búið að líða eins og mér var búið að líða allan þennan tíma. Ég var ekki ömurleg móðir, ég var bara að burðast ein með hugsanir og tilfinningar sem ég skildi ekki.

Í dag er ég miklu meðvitaðri um hvernig mér líður og tengslin við börnin mín eru alltaf að verða sterkari og sterkari. Elsku yndislega stelpan mín fór í gegnum mjög erfiða tíma með mér en með því að tala saman og búa til nýjar minningar erum við sterkari en ég hefði getað ímyndað mér.  Við grátum saman, hlæjum saman og förum í gegnum erfiðar tilfinningar saman.   Allar tilfinningar eru leyfilegar og samþykktar á okkar heimili og þannig viljum við hafa það.

Ef ég gæti farið til baka myndi ég hvetja ungu buguðu móðurina til þess að biðja um aðstoð, segja mömmu hvað er í raun og veru í gangi, tala við vini sína og ekki vera hrædd við að tala opið um það hvernig henni líður og hvað hún er að upplifa.

Það er engin skömm í því að finnast erfitt að vera mamma og fæðingarþunglyndi er ekkert grín, það ætti enginn að þurfa að bera það einn. Ef þú ert að upplifa eitthvað svipað eða tengir við þessi skrif, ekki hika við að leita þér aðstoðar, hvort sem það er hjá fagaðila, fjölskyldumeðlimi eða traustum vini.   Það þurfa allir stuðning <3 

Fleiri greinar

Póstlisti

Skráðu þig á póstlista Þorpsins og fáðu upplýsingar um allt það nýjasta sem er framundan hjá okkur í viðburðum, námskeiðum og nýjungum í vefverslun.

Við notum vafrakökur til að tryggja að þú fáir bestu upplifunina á vefsíðunni okkar.  Ef þú heldur áfram gerum við ráð fyrir að þú samþykkir þessa skilmála. Lesa meira