Höfundur: Íris Dögg Jóhannesdóttir, co-creator
@leikskolinnmanagardur
Að skiptast á og leika saman.
Skiptist þið bara á og leikið saman, fallega –töfralausn fullorðinna, en hvað með börnin?
Tvær konur á miðjum aldri, Kristín og Ragna, koma inn í kjólabúð. Þær ganga að sömu slánni, taka samtímis í sama herðatré og ætla báðar að fá sama kjólinn. Þær líta hvor á aðra og byrja síðan báðar að toga herðatréð til sín. Hvorug ætlar að gefa eftir. Afgreiðslustúlkan kemur aðvífandi og segir við Rögnu: „Svona, láttu hana fá kjólinn, hún var aðeins á undan þér inn í búðina“. Ragna lítur á afgreiðslustúlkuna og segir: „Ég held nú síður, ég ætla að fá þennan kjól!“. Afgreiðslustúlkan lítur þá á Kristínu og segir: „Æ láttu hana bara hafa kjólinn og finndu þér bara annan kjól!“. Kristín togar kjólinn fastar að sér og þá segir afgreiðslustúlkan brosandi: „Hey, skiptist þið bara á eða notið hann bara saman!“. Ragna og Kristín toga nú báðar enn fastar í herðatréð og þá hvæsir afgreiðslustúlkan: „Nú ef þið ætlið að láta svona, þá tek ég bara kjólinn!“.
Þetta myndi líklega aldrei gerast í alvörunni og okkur, fullorðna fólkinu, fyndist þetta fáránlegt.
Við myndum ekki láta bjóða okkur svona framkomu en samt komum við svona fram við börn sem eru að stíga sín fyrstu skref í félagslegum samskiptum. Börn sem hafa ekki ennþá sama þroska, reynslu eða skilning og við, fullorðna fólkið. Oft tökum við, fullorðna, þroskaðra, reynslumeira fólkið, ekki tillit til tilfinninga, langana og óska barnanna og komum því strax með þessa frábæru töfralausn, að skiptast á og leika saman! Það á nefnilega að leysa allan vanda.
En það gerir það ekki.
Ástæðan er sú að ung börn eru mjög sjálflæg og hafa ekki þroska og reynslu til að setja sig í spor annarra. Því hljómar þessi töfralausn hinna fullorðnu, að skiptast á og leika saman, ekki svo vel í ungum eyrum. Þegar ég er 2ja ára þá vil ég það sem ég vil þegar ég vil það og ekki sekúndu seinna. Ég hugsa nefnilega svona; ég, um mig, frá mér, til mín. Og það er ekki af því ég er frekja eða með yfirgang eða vond. Heldur af því ég kann ekki annað. Ég hef ekki þroska, reynslu né skilning á því, ennþá.
Að skiptast á er nefnilega mjög flókið fyrir ung börn og jafnvel þó öll fallist á að skiptast á þá á eftir að taka fleiri ákvarðanir. Það á eftir að ákveða hver á að byrja? Hver ræður því? Hvað á sá sem byrjar að vera lengi með hlutinn? Hver ræður því? Hver segir hvenær á að skipta? Hver fylgist með því? Eru öll sátt við lausnina? Allt þetta þarf að taka til athugunar áður en við förum að skiptast á og öll þurfa að vita, skilja og vera sammála um það sem er að fara að gerast.
Til að börnin læri þarf að leiðbeina þeim, ekki koma með lausnina fyrir þau, neyða þau til að fara eftir henni og skammast svo yfir að þau séu frekir fýlupúkar og svona sé þetta bara, það eigi alltaf að skiptast á. Eða að segja þeim að þau eigi að vera kurteis og góð og skiptast á og leika saman. Þannig læra þau ekkert nema að bæla tilfinningar sínar og skoðanir og láta aðra leysa málin. Það þarf að vinna með þeim til að finna lausn sem allir sætta sig við.
Við, fullorðna fólkið, erum fyrirmyndirnar og börnin læra af okkur. Til þess að þau læri þurfum við að hlusta á þau, tala við þau, bera virðingu fyrir þeirra skoðunum, tilfinningum og reynslu og aðstoða þau við að komast á næsta skref. Þetta tekur tíma, það þarf að endurtaka þetta mörgum sinnum og þetta kostar þolinmæði en skilar sér á endanum í sjálfstæðum einstaklingum sem læra að leysa deilur, finna lausnir og hjálpa sér og öðrum.
Hvað er þá til ráða? Hvernig er best að bregðast við? Hvað á ég að segja? Tvö börn eru að togast á um sama hlutinn. Þau ætla hvorugt að gefast upp og eru að verða ansi pirruð og reið.
Fyrst af öllu er að nálgast börnin rólega og stöðva/koma í veg fyrir skaðlega hegðun. Það þarf að koma rólega að þeim og segja yfirvegaðri röddu að þú sjáir að hér sé vandamál, þau vilji greinilega bæði leika með þetta dót því þau séu bæði að toga mjög fast í það (t.d. „Ég sé að hér er vandamál, þið eru bæði að toga í dúkkuna, mér sýnist þið bæði vilja leika með hana“). Líkamstjáningin þín skiptir miklu máli.
Svo segir þú að þú ætlir að geyma dótið á meðan þið leysið þetta vandamál. Hér er mikilvægt að segja „ÉG ÆTLA að geyma dótið“ en ekki „má ég geyma dótið“ eða „viltu láta mig fá dótið“. Með því að gera dótið hlutlaust (þú heldur á því og þau sjá það allan tímann) geta börnin frekar einbeitt sér að því að finna lausnina, því dótið er „öruggt“ og þau þurfa ekki að hugsa um það.
Það er mikilvægt að viðurkenna tilfinningar barnanna og lýsa þeim. Þú þarft að segja að þú sjáir/heyrir að barnið sé í uppnámi („Ég heyri að þú ert mjög leiður/sorgmæddur/æstur“ o.s.frv.). Það þarf að viðurkenna tilfinningar allra sem eiga hlut að máli og róa börnin áður en farið er að finna lausnina. Þú þarft alltaf að vera hlutlaus og ekki taka afstöðu með öðru hvoru barninu, jafnvel þótt annað barnið hafi verið að taka af hinu.
Þegar þú hefur gert dótið hlutlaust og viðurkennt tilfinningar barnanna og allir orðnir rólegri er hægt að fá betri upplýsingar og fara að finna lausnina. Safnaðu upplýsingum. Það er gott að lýsa því sem þú sérð hjá yngri börnunum („Ég sé að þið eruð bæði að toga mjög fast í þetta dót, þið viljið bæði leika með þetta“). Þú spyrð eldri börn hvað sé vandamálið og hlustar hlutlaust á alla aðila.
Það er mikilvægt að spyrja á réttan hátt hér! Þú þarft að spyrja HVAÐ spurninga. Hvað gerðist? Hvað gerði þig reiða/leiða/pirraða osfrv? Hvað er vandamálið? Hvað vantar þig? Hvað er hægt að gera til að leysa þetta? Börnin segja þér hvað þau halda að hafi gerst/hvað þeim finnst að hafi gerst. Mundu að pása og gefa þeim tíma til að koma hugsunum sínum í orð. Endurtaktu vandamálið. Endursegðu það sem börnin segja þér, svo þau viti og heyri að þú skilur þau og að öll smáatriðin séu á hreinu.
Mundu bara að vera hlutlaus, ekki ásakandi og segðu: „Svo vandamálið er…“
Hvernig á svo að finna lausn á vandamálinu?
Þegar ljóst er hvert vandamálið er þá spyrð þú börnin „Hvernig við getum leyst þetta vandamál?“. Það er mjög algengt að ung börn segi „Skiptast á!“, því það er lausnin sem þeim hefur oftast verið gefin. Ef þau segja það þá þarf að spyrja hvernig þau ætli að skiptast á? Hver á að gera fyrst og hvenær á að skipta? Þau standa stundum á gati þegar maður spyr þau hvernig þau ætli að skiptast á því þau eru svo sjálflæg og vilja hafa dótið. Stundum þarf að finna málamiðlanir og bjóða báðum börnunum að koma með að finna eins/svipað dót og sjá hvað gerist þá. Þá segir þú: „Ég er með hugmynd, komiði með mér“ og saman farið þið og finnið annað eins/svipað dót. Það er mjög líklegt að annað barnið skipti um skoðun og velji sér annað dót en það sem tekist var á um í fyrstu.
Það er mikilvægt að við samþykkjum lausnir barnanna, ef þau ganga sátt frá borði, sama þótt okkur finnist lausnin ósanngjörn. Það þarf að ganga úr skugga um að öll séu sátt við þá lausn sem finnst. Þá segir þú t.d. „Ætlar þú ekki að hafa þennan bíl? Má hann þá fá hann?“. Það þarf að leggja áherslu á það við börnin að þau hafi leyst vandann því þau eflast við að heyra þig segja: „Þið funduð lausnina/þið komuð með hugmyndina/þið leystuð vandamálið“. Eldri börnin koma með allskonar lausnir og börn sem standa utan við deilurnar og fylgjast með koma oft líka með lausnir og það er mikilvægt að grípa þær og leggja þær fyrir börnin sem eru að reyna að leysa vandann.
Hafa þarf í huga að þetta er nýtt ferli fyrir ykkur og þau og það tekur tíma að æfa sig í þessu. Munurinn á þessari aðferð og þeirri að segja börnum einfaldlega að skiptast á er sú að í þessu ferli læra börn smám saman að leysa vandamálin sjálf og með öðrum. Þau læra að koma með hugmyndir að lausnum, hlusta á hugmyndir annarra, gera málamiðlanir og taka ákvarðanir. Þau fá aukna reynslu og verða færari í félagslegum samskiptum með þessari aðferð en ef við komum bara og segjum þeim að skiptast á, án þess að þau fái tækifæri til að tjá sig. Það er mjög áríðandi að viðurkenna tilfinningarnar, þannig læra börn að það er eðlilegt að upplifa þær allar og þær heita allar eitthvað.
Börn læra best af eigin reynslu og upplifun og það er okkar að sjá til þess að þau fái hana.