Hugleiðingar og staðreyndir um mikilvægi fyrstu áranna
Fjölmargar rannsóknir hafa leitt í ljós mikilvægi meðgöngu og fyrstu áranna í sambandi við þroska og velferð einstaklinga alla ævi. Það hefur komið í ljós að streita og áföll í æsku geta haft mikil áhrif á velferð, þroska og heilsu barna og geta áhrifin varið alla ævi ef ekkert er að gert.
Langtímaeftirfylgnirannsóknir sýna þetta vel og má í því sambandi t.d. nefna Avon longitudinal rannsóknina í Bretlandi, Minnesota longitudinal rannsóknina í Bandaríkjunum, Dunedin rannsóknina á Nýja Sjálandi og All our Familys rannsóknina í Canada.
Meðganga, fæðing og fyrstu árin eftir fæðingu barns er sérstaklega mikilvægur tími þar sem heilinn er viðkvæmur og auðmótanlegur á þeim tíma. Fjölskyldur ungra barna eru oft undir miklu álagi, m.a. vegna félagslegra þátta og álags sem fylgir því að aðlagast nýju hlutverki og hugsa um lítinn einstakling sem þarfnast stöðugrar umönnunar, tilfinningalegrar nálægðar og örvunar.
Segja má að sú samfélagsgerð sem við búum við í vestrænum ríkjum sé hvorki sérstaklega styðjandi né verndandi fyrir fjölskyldur ungra barna. Það eru gjarnan miklar ytri kröfur um að foreldrar skili sínu úti á vinnumarkaðinum og standi sig afburðarvel á öllum sviðum. Á sama tíma fá foreldrar oft lítinn stuðning frá stórfjölskyldu, vinum og fá oft á tíðum ekki nægilegan stuðning frá velferðarkerfinu. Foreldrar geta þurft að hafa áhyggjur af afkomu, vinnu og/eða barnapössun jafnvel á meðgöngu eða á fyrstu mánuðunum í lífi barns á sama tíma og barnið þarfnast mikillar athygli, nærveru og stuðnings frá foreldrum. Það eru alls ekki allir foreldra sem í okkar kröfuharða samfélagi njóta nægilegs stuðnings ,,Þorpsins“ við uppeldi barna sinna. Það eykur álag á foreldra, veldur áhyggjum, streitu og kvíða hjá þeim sem getur síðan haft neikvæð áhrif á getu þeirra til að sinna barninu sínu og njóta þess dýrmæta tíma sem þau eru í samvistum.
Þorpið er mikilvægt úrræði fyrir fjölskyldur ungra barna sem fyllir upp í ákveðið tómarúm í samfélaginu og getur veitt fjölþættan stuðning og fræðslu. Þorpið getur gefið foreldrum tækifæri á hitta aðrar fjölskyldur, deila reynslu sinni og spegla sig í reynslu annarra foreldra. Þannig er um að ræða valdeflandi úrræði sem ýtir undir gleði og jákvæða upplifun í samveru foreldranna með barni sínu og öðrum fjölskyldum. Það styrkir tengslamyndun foreldra og barna.
Tengslamyndun er mjög mikilvægur grunnur fyrir framtíð einstaklingsins. Góð tengslamyndun foreldra og barna dregur meðal annars úr:
- Þroska- og hegðunarvanda barna og unglinga
- Áfengis- og fíkniefnaneyslu þeirra
- Andlegum og líkamlegum heilsufarsvanda á fullorðinsárum
- Við fæðingu er heili barns um 50% af fullorðinsstærð. Við þriggja ára aldur er heilinn um 75% af fullorðinsstærð og við 5 ára aldur er heilinn orðinn um 90% af fullorðinsstærð. Meðgangan og fyrstu árin leggja grunn að heilaþroska og velferð barnsins. Heilbrigð heilafrumutengsl byggjast því á heilbrigðum mannlegum tengslum.
Samskipti eins og snerting, augnsamband, gagnkvæmt hjal og leikur eru leiðir til að ná til barnsins og hafa áhrif á líðan þess. Þessi atriði leggja grunn að mikilvægum taugalífeðlisfræðilegum þroska sem leggur grunninn að ýmiskonar eiginleikum og færni sem barnið býr að alla ævi. Grunnur að náms-og félags- færni kominn strax við 3ja ára aldur.
Heilinn er misviðkvæmur fyrir álagi og streitu álagi vegna þess að mismunandi eiginleikar eru að þroskast. Forskólaaldurinn er sérstaklega viðkvæmt tímabil, þá er grunnurinn fyrir félagsfærni, tilfinningastjórnun og málþroska lagður, áður en barnið byrjar í skóla. Geðheilsa og þroskaferill ungbarna byggist á samspili meðfæddra eiginleika sem barnið hefur, tilfinningasambandi og samskiptum foreldra og barns ásamt félagslegu umhverfi fjölskyldunnar.
Heilinn er í örustum vexti og mótun á meðgöngu og fyrstu árin eftir fæðingu. Á þeim tíma er hann auðmótanlegastur. Heilinn heldur þó áfram að þroskast til 25 ára aldurs, en eftir það hægist mikið á endurnýjun taugafruma og myndun nýrra taugafrumutengsla. Þó er nýmyndun til staðar alla ævi og því aldrei of seint að gera við það sem farið hefur úrskeiðis fyrr á ævinni. Hins vegar þarf meira til að hafa áhrif á starfsemi heilans síðar á ævinni eins og þessi mynd frá Harvard University sýnir.
The Center on the Developing Child Harvard University
The Heckman Equation
Það er frábær fjárfesting fyrir samfélag að verja fjármunum sem fyrst á ævi einstaklingsins, það skilar mestum arði til samfélagsins, í formi sparnaðar í heilbrigðis-, mennta-, velferðar- og dómskerfinu. Dr. James Heckman fékk Nóbelsverðlaun í hagfræði fyrir að sýna fram á þetta samhengi sem kemur vel fram í þessari mynd.
Úrræði eins og Þorpið hefur því margfalt gildi, bæði samfélagslega og persónulega fyrir fjölskyldur ungra barna. Það er ómetanlegt fyrir foreldra að hafa val um fleiri leiðir til að styrkja sig í foreldrahlutverkinu, njóta samvista við aðrar fjölskyldur og fá stuðning, fræðslu og snemmtæk inngrip frá fagfólki.
Höfundur
Anna María Jónsdóttir, Barna- unglinga- og almennur geðlæknir